Við eigum réttindi og við viljum frið

Skóli og frístund

""

Nær þrjú hundruð leikskóla- og grunnskólabörn gengu fylktu liði frá Hallgrímskirkju og niður í Ráðhús Reykjavíkur í dag til að minna á réttindi sín samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er 24 ára um þessar myndir. 

Frístundamiðstöðvin Kampur skipulagði gönguna á afmælisdegi Barnasáttmálans og tóku börn úr 1. bekk Austurbæjarskóla og Háteigsskóla, leikskólanum Miðborg og frístundaheimilunum Draumalandi, Eldflauginni og Halastjörnunni þátt í göngunni. 

Börnin vissu vel af réttindum sínum og báru þau kröfuspjöld með áletrunum úr ákvæðum Barnasáttmálans, s.s. öll börn eiga rétt á að eiga nafn og búa við frið.

Jón Gnarr borgarstjóri tók á móti börnunum þegar þau komu í Ráðhús Reykjavíkur þar sem göngunni lauk og veitingar biðu þeirra. Börnin færðu borgarstjóra myndverk að gjöf og sungu fyrir hann baráttusöngva sem orðið hafa til á frístundaheimilunum á undanförnum vikum.

Á hverju ári vinna börn á þessum frístundaheimilum með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem þeim eru kynnt grunnréttindi sín í gegnum listir og leik.
Dagana 21.-24.nóvember verður sýning í anddyri Borgarbókasafns með verkefnum úr þemavinnu barnanna.