Aukin gæði í mötuneytisþjónustu skóla

Skóli og frístund

""

Níu af hverjum tíu nemendum í grunnskólum borgarinnar eru í mataráskrift, eða 12.168 börn, og um 6.000 börn fá daglega heita máltíð úr mötuneytum leikskólanna. Almenn ánægja er með þann mat sem í boði er en hann er í flestum tilvikum eldaður á staðnum.

Kannanir hafa leitt í ljós að rösklega 80% foreldra leikskólabarna eru ánægð með matinn, en töluvert færri foreldrar eru ánægðir með matinn í grunnskólunum eða röskur helmingur.

Stefnt er að því að auka ánægju grunnskólabarna og foreldra með matinn með markvissari hráefniskaupum og auknu gæðaeftirliti. Meðal annars stendur til að safna saman þeim uppskriftum sem börnin eru ánægðust með og aðlaga þær að ráðleggingum um næringarsamsetningu samkvæmt embætti Landlæknis.

Jafnframt er stefnt að því að bæta rafræna upplýsingamiðlun til foreldra um næringarsamsetningu skólamáltíðanna og veitir nýtt umsjónarkerfi skólamötuneytanna möguleika á því að foreldrar geti betur kynnt sér matseðla og samsetningu máltíða. Umsjónarkerfið verður jafnframt sameiginlegur gagnagrunnur fyrir yfirmenn skólamötuneytanna til að halda utan um samræmd hráefnisinnkaup, matseðla og verð.

Mánaðaráskrift að skólamáltíð kostar nú 6. 600 kr. og er það með lægsta gjaldi sem foreldrar á höfuðborgarsvæðinu greiða fyrir mötuneytisáskrift, en foreldrar fá 100% afslátt af áskrift fyrir þriðja barnið. Á árinu 2012 greiddi Reykjavíkurborg niður skólamáltíðir um 20 milljónir króna vegna systkinaafsláttar.