Vefur Reykjavíkurborgar er meðal fimm bestu sveitarfélagavefja landsins

Vefur Reykjavíkurborgar er meðal fimm bestu sveitarfélagavefja landsins. Þetta kom fram á ráðstefnunni „Hvað er spunnið í opinbera vefi“ sem Skýrslutæknifélag Íslands stóð fyrir á Grand Hótel. Kynnt var niðurstaða úttektar á opinberum vefjum ríkis og sveitarfélaga árið 2011.

Í úttektinni eru vefir alls 276 opinberra stofnana og sveitarfélaga skoðaðir og metnir samkvæmt fyrirfram ákveðnum mælikvörðum. Þeir fimm vefir sem skoruðu hæst, annars vegar í flokki ríkisstofnana og hins vegar í flokki sveitarfélaga voru svo skoðaðir af dómnefnd sem lagði huglægt mat á notagildi vefsins, útlit og almenna upplifun af að nota hann.

Í flokki sveitarfélaga voru það vefir Akureyrar, Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem komu til greina sem besti vefurinn og fyrir valinu varð vefur Akureyrarbæjar. Í flokki ríkisstofnana var vefur Tryggingastofnunar valinn besti vefurinn.

Eins og áður sagði var Reykjavíkurborg í hópi fimm bestu sveitarfélagavefjanna og þegar niðurstöður úttektarinnar eru skoðaðar nánar kemur fram að www.reykjavik.is skorar í heildareinkunn 88%, sem er hæsta skorið meðal allra sveitarfélaga.

Smelltu hér til að skoða frekari niðurstöður

Það er vissulega ánægjuefni að vera í hópi fimm bestu vefjanna. Vefurinn www.reykjavik.is er í stöðugri þróun með það að markmiði að veita framúrskarandi þjónustu þar sem íbúar geta sótt þjónustu og upplýsingar allan sólarhringinn allan ársins hring.