Hverfisráð Kjalarness - Fundur nr. 73

Hverfisráð Kjalarness

Ár 2010, fimmtudaginn 23. september var haldinn 73. fundur hverfisráðs Kjalarness. Fundurinn hófst kl. 16:10 og var haldinn í Miðgarði. Viðstödd voru Marta Guðjónsdóttir, formaður, Eldey Huld Jónsdóttir, Ágúst Már Garðarsson, Hanna Lára Steinsson og Hólmar Þór Stefánsson. Auk þeirra sátu fundinn Ásgeir Harðarson, formaður íbúasamtaka Kjalarness, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri í Miðgarði, Margrét Richter, rekstrarstjóri í Miðgarði, og Hera Hallbera Björnsdóttir, frístundaráðgjafi í Miðgarði, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Rætt um fastan fundartíma hverfisráðs og viðtalstíma hverfisráðsmanna. Ákveðið að festa fundartíma hverfisráðs annan fimmtudag í mánuði, kl. 17:00. Ákveðið að vera með fasta viðtalstíma hverfisráðsmanna annan miðvikudag í mánuði kl. 18:00. Fyrsti viðtalstími verður 13. október kl. 18:00 í Fólkvangi á Kjalarnesi. Ákveðið að auglýsa viðtalstíma hverfisráðsmanna á www.kjalarnes.is með mynd af þeim ráðsmönnum sem til viðtals verða hverju sinni.

2. Lögð fram starfsáætlun hverfisráðsins. Eldey lagði fram drög að starfs-/verkáætlun hverfisráðs fyrir veturinn 2010-2011. Marta lagði til að hver ráðsmaður velji sér ákveðinn flokk sem þeir muni einbeita sér að í vetur.
1. Grænt Kjalarnes/Skipulagsmál/Atvinnumál
Eldey, Sigríður, Ágúst
2. Umferðaröryggi/Samgöngumál/Strætó
Marta, Hanna Lára, Hólmar
3. Þjónustustofnanir Reykjavíkurborgar
Hólmar, Ágúst, Ásgeir

3. Rætt um leikskólamál á Kjalarnesi. Hildur Magnúsdóttir frá leikskólasviði kom á fundinn undir lið 3. Ásgeir Harðarson fór yfir áhyggjur íbúasamtakanna vegna sameiningar leikskólans Berg á Kjalarnesi við leikskólann Bakka í Grafarvogi. Hildur Magnúsdóttir fór yfir störf starfshóps um sameiningu leikskólanna tveggja. Starfshópurinn taldi sameiningu leik- og grunnskóla ekki fýsilegan kost, en aukið samstarf milli þeirra væri hins vegar af hinu góða. Niðurstaða starfshópsins var að fýsilegasti kosturinn væri að sameina þessa tvo leikskóla. Starfshópurinn nýtti sér niðurstöður frá íbúaþingi sem haldið var í maí 2010.

4. Rætt um hraðahindranir og umferðaröryggismál á Brautarholtsvegi. Eldey fór yfir hvernig staða mála er og hvað þurfi að gera.
Bókun hverfisráðs:
Hverfisráð leggur áherslu á að við gerð fjárhagsáætlunar verði lögð áhersla á að umferðaröryggi við Brautarholtsveg. Ítrekar ráðið óskir sínar um að lagður verði göngu- og hjólastígur meðfram veginum og lýsing sett meðfram stígnum.

5. Rætt um íþróttavöll. Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri framkvæmdasviði, komst ekki á fundinn. Lofar öllu fögru um að farið verði í framkvæmdirnar sem fyrst, en peninga vantar svo hægt verði að byrja verkið. Málinu frestað til næsta fundar. Óskað eftir að Hrólfur mæti á þann fund til að ræða um málið.

6. Farið yfir framkvæmdir fyrir neðan Esjugrund. Hrólfur ætlaði að fara yfir stöðu mála. Ingibjörg mun hafa samband við hann og óska eftir minnisblaði um hver staðan er. Ásgeir fór yfir óánægju íbúa varðandi það að stígurinn mun liggja ofar en flötin því stígurinn liggur ansi nálægt framhjá nokkrum húsum.

7. Lagt fram minnisblað frá garðyrkjustjóra vegna framkvæmda við útivistartorg. Ásgeir fór yfir að í útboði var ekki gert ráð fyrir kostnaði við svið. Gleiðara er á milli staura en til stóð í upphafi því óttast var að börn gætu fest sig á milli stauranna. Hugmynd að gróðursetja 2-3 metra há tré til viðbótar við staurana til að þétta. Ákveðið að Ásgeir og Hólmar fylgi málinu eftir og kanni hvaða gróður mun henta best. Ákveðið að stefna að því að halda formlega vígslu á útivistartorginu laugardaginn 9. október.

8. Ásgeir óskaði eftir að tekinn yrði upp sérstakur liður um mál íbúasamtaka Kjalarness. Ákveðið að hafa það ekki sem sérstakan lið heldur sendi Ásgeir inn til formanns, varaformanns eða Ingibjargar þau mál sem á íbúasamtökunum brenna.

9. Lögð fram athugasemd íbúasamtaka Kjalarness vegna kjörinna fulltrúa í hverfisráði Kjalarness en meirihluti kjörinna fulltrúa býr ekki á Kjalarnesi. Óska íbúasamtökin eftir því að skipan hverfisráðs verði endurskoðuð. Marta fór yfir forsögu hverfisráða. Ákveðið við stofnun hverfisráða að í ráðunum sitji kjörnir fulltrúar, varafulltrúar eða varamenn. Í dag er búið að breyta þessu og nú þurfa formenn og varaformenn að vera kjörnir fulltrúar en aðrir ráðsmenn megi koma úr röðum íbúa.

- Kl. 18.15 vék Sigríður af fundi.
-
10. Ásgeir ósakaði eftir að þökkum yrði komið til Framkvæmdasviðs vegna grasslætti og hreinsunar í hverfinu í vikunni fyrir Kjalarnesdaga.
Bókun hverfisráð:
Hverfisráð þakkar fyrir snör viðbrögð og góða tímasetningu á hreinsun og slætti í Grundarhverfi fyrir Kjalnesingadaga.

11. Rætt um Nágrannavörslu við Brautarholtsveg. Ákveðið að taka það fyrir á næsta fundi.

Fundi slitið kl. 18.20

Marta Guðjónsdóttir

Ágúst Már Garðarsson Eldey Huld Jónsdóttir
Hanna Lára Steinsson Hólmar Þór Stefánsson