Varðveita menjar um bæinn Breiðholt

Lára Sigríður Baldursdóttir, íbúi í Seljahverfi, sendi inn hugmynd á vefinn Betri hverfi um að varðveita menjar um bæinn Breiðholt. Nú er hugmynd Láru meðal þeirra verkefna sem kosið er um í Breiðholti í rafrænum íbúakosningum um betri hverfi sem nú standa yfir

Þar sem íbúahverfið Breiðholt stendur núna stóð sveitabær sem hét Breiðholt. Um langt skeið var þetta svæði einnig aðalberjatínslusvæði borgarbúa. Hugmyndin var til þegar Lára fór á hverfafund borgarstjóra Í Gerðubergi þar sem verkefnið Betri hverfi og rafrænar íbúakosningar voru m.a. kynntar. Breiðholtsbærinn var meðal þess sem minnst var á og því fannst Láru upplagt að leggja hugmyndina inn fyrir íbúakosningarnar.

Að sögn Láru eru húsatóftirnar menjar sem ber að varðveita og minna okkur á að Breiðholt var áður sveit. Það er mikilvægt að virða fortíðina og vera meðvitaður um söguna. Fram kom á fundinum í Gerðubergi að huga þarf betur að svæðinu í kringum tóftirnar, þar hefur skort á að gras sé slegið á sumrin og upplýsingaskiltum er ekki viðhaldið sem greina frá sögulegum atriðum um Breiðholtsbæinn.

„Það væri gaman ef bragarbót yrði gerð á þessu og jafnframt komið upp aðstöðu fyrir fólk til að staldra þarna við, s.s. með því að setja upp nestisborð og bekki. Ef svæðið er aðlaðandi til útivistar þá laðar það fleiri að húsatóftunum. Það væri líka tilvalið fyrir skólana í Breiðholti að nýta svæðið og tóftirnar við samfélagskennslu og myndu borð og bekkir þá nýtast nemendum sem fara í vettvangsferðir. Minningin um sveitabæinn Breiðholt gætu verið sameiningartákn alls hverfisins,“ segir Lára að lokum.

Klukkan þrjú í dag höfðu 1.300 manns kosið í íbúakosningunum en hægt er að kjósa til 11. apríl á https://kjosa.betrireykjavik.is.