Við eigum að vera óhrædd við að taka þátt í lýðræðinu

Nemendur í Háskóla unga fólksins áttu fund með Jóni Gnarr borgarstjóra í dag og bar margt skemmtilegt á góma í samræðum þeirra. Nemendur spurðu borgarstjóra m.a. að því af hverju Besti flokkurinn hefði fengið það nafn og fengu það svar að það væri andsvar við því viðhorfi að það væri eitthvað til sem væri best eða betra en annað í stjórnmálum. Hlutirnir væru yfirleitt alls konar.

Fimmtán nemendur úr 7.-9. bekk sem þessa dagana eru í Háskóla unga fólksins kusu að skoða stjórnmál og tengsl þeirra við poppmenningu, vald og frægð. Þau höfðu því um margt að spyrja þegar þau komu á fund borgarstjóra. Þau spurðu af hverju hann hefði farið út í stjórnmál, hvort reynsla hans sem leikara nýttist honum í starfi, hvernig venjulegur starfsdagur væri í þessu embætti og hvort þetta væri skemmtilegt starf.

Í svörum borgarstjóra kom fram að hann hefði farið út í stjórnmál af því að hann taldi sig hafa erindi, að lýðræðið væri í hans augum endurnýjun og uppstokkun og að allir yrðu að vera óhræddir við að taka þátt í því. Borgarstjórastarfið væri skemmtilegt og hann hefði margt að vera stoltur af. Þá sagði hann að leiklistin hefði nýst honum vel í starfi og að hann væri stöðugt að vinna að þeirri listgrein beint og óbeint.

Borgarstjóri leiddi ungu háskólanemana um ráðhúsið, sýndi þeim skrifstofuna sína og borgarstjórnarsalinn þar sem þeim var boðið upp á veitingar.