Lestrarhátíð sett í Reykjavík

Jón Gnarr, borgarstjóri setti Lestrarhátíð í Reykjavík formlega í aðalsafni Borgarbókasafns Reykjavíkur í Grófarhúsi í morgun.
Við setninguna opnaði ljósmyndasýningin Elías Mar þar sem gefur að líta myndir úr safni skáldsins, en sýningin er samstarfsverkefni Bókmenntaborgarinnar, Borgarbókasafns og Ljósmyndasafns Reykjavíkur. 

Anna Svava Knútsdóttir og Dóri DNA spjalla á léttum nótum um tungumálið og notkun slangurs og nýyrða í málinu og
Fríða Dís Guðmundsdóttir, ásamt Erni Eldjárn og Lesstofukórnum, fluttu nýja íslenska útgáfu á laginu Vögguvísa (chi-baba, chi-baba)?
 
Lestrarhátíðin er eitt af lykilverkefnum Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og  til stendur að hún verði að árlegum viðburði. Í október lifnar yfir Bókmenntaborginni og býðst borgarbúum á öllum aldri að taka þátt með ýmsum hætti. Hátíðin er helguð skáldsögunni Vögguvísu eftir Elías Mar, sem er ein fyrsta Reykjavíkursagan og segir frá nokkrum dögum í lífi unglingspilts á eftirstríðsárunum.

Lestrarhátíðin fer þannig fram að borgarbúar á öllum aldri sameinast um að njóta þess að lesa þessa tilteknu bók, ræða hana, uppgötva og vinna með útfrá öllum mögulegum sjónarhornum. Í mánuðinum verða allir þeir aðilar sem gera Reykjavík að bókmenntaborg virkjaðir: skólar, bókasöfn, bókaútgefendur, rithöfundar og lesendur.
 
Boðið verður upp á bókmenntagöngur um slóðir Vögguvísu, framhaldsskólanemar standa fyrir lestrarmaraþoni, Landsbókasafn Íslands sýnir frumhandrit Elíasar að Vögguvísu og fleiri skjöl úr safni hans svo eitthvað sé nefnt. Á vefsíðu hátíðarinnar verður m.a. hægt að taka þátt í lifandi leshring og leggja lið í slangur- og nýyrða söfnun.

Orðið er frjálst – Lestrarhátíð í Reykjavík er á vegum Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO. Helstu samstarfsaðilar eru Borgarbókasafn, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, Lesstofan, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, RÚV og Landsbókasafn Íslands.

Nánari upplýsingar um hátíðina má nálgast á www.bokmenntir.is.