Viðsnúningur í rekstri - afkoma borgarinnar jákvæð um 1,8 milljarða

Fjármál

""

Frumvarp að fjárhagsáætlun 2017 og fimm ára áætlun 2017 - 2021 lögð fram í borgarstjórn í dag.

Reykjavík er borg í örum vexti. Metár eru framundan í byggingu íbúða, atvinnustig hefur sjaldan verið jafn hátt og atvinnulífið sækir fram á sviði ferðaþjónustu, þekkingariðnaðar og skapandi greina. Undanfarin ár hafa einkennst af umtalsverðum launahækkunum hjá sveitarfélögum en tekjur hafa hækkað hægar. Fjármál borgarinnar hafa því verið í járnum. Með sameiginlegu átaki, aðhaldi og hagræðingu, samhliða ákveðnum tekjuvexti, hefur nú tekist að leggja fram fjárhagsáætlun með afgangi án þess að hækka skatta. Það svigrúm sem hefur verið orðið til vegna rekstarbatans hefur verið nýtt til  að hefja nýja sókn í skólamálum, fjölga búsetuúrræðum og til að bæta velferðarþjónustu í takt við auknar þjónustukröfur. Þannig er forgangsraðað í þágu grunnþjónustu, bæði með launahækkunum til starfsfólksins sem sinnir þjónustunni og auknu rekstrarfé til hennar.

„Rekstur borgarinnar er traustur og í honum felast sóknarfæri til vaxtar og fjárfestinga. Við höldum áfram að fjárfesta í öflugum innviðum og umfangsmikilli húsnæðisuppbyggingu en höfum líka náð að brúa bilið vegna mikilla launahækkana án þess að hækka skatta. Reksturinn skilar hóflegum afgangi sem er nauðsynlegur fyrir góða afkomu til framtíðar. Við megum þó hvergi slaka á í aðhaldi með rekstrinum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Jákvæður rekstur A-hlutans upp á 1,8 milljarð króna

Árið 2017 er áætluð rekstrarniðurstaða borgarsjóðs (A-hluti) jákvæð um 1,8 milljarða. Til samanburðar má geta þess að afkoma A-hluta var neikvæð sem nemur 13,6 milljörðum árið 2015 en útkomuspá ársins 2016 gerir ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 241 mkr. Rekstrarniðurstaða A-hluta hefur sveiflast mikið á síðustu árum, m.a. vegna kjarasamninga árin 2014-2015 og gjaldfærslu lífeyriskuldbindingar.
Árin 2017-2021 er gert ráð fyrir mun betri afkomu. Á þessu tímabili er afkoman studd af tekjum af söluhagnaði og sölu byggingarréttar, sem nema á bilinu 3,7 ma.kr. til 4,4 ma.kr. ár hvert. Með styrkingu rekstrar í fimm ára áætlun verður rekstur minna háður þessum tekjum og þar með sjálfbærari þegar horft er til lengri tíma.

Fjárhagur A-hluta er sterkur þrátt fyrir að árið 2015 hafi  skuldahlutfall A-hluta hækkað úr 77,1% í 88,6% vegna mikillar hækkunar lífeyrisskuld¬bindinga. Árin 2016-2018 er gert ráð fyrir nokkuð stöðugu skuldahlutfalli og að það lækki síðan í jöfnum skrefum til ársins 2021.

 

Skuldahlutfall A-hluta er langt fyrir neðan viðmið sveitarstjórnarlaga. Árin 2016-2018 er gert ráð fyrir nokkuð stöðugu skuldahlutfalli og að það lækki síðan í jöfnum skrefum til ársins 2021.

 

Samstæða Reykjavíkurborgar: Góð afkoma á næstu árum

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar árið 2017 er áætluð jákvæð um 15,2 milljarða og jákvæð um 20,5 makr fyrir fjármagnsliði. Góðan afgang má einkum rekja til Orkuveitu Reykjavíkur og Félagsbústaða hf. vegna matsbreytinga fjárfestingaeigna félagsins. Til samanburðar má geta þess að um 5 milljarða króna halli var á samstæðunni  árið 2015 en í útkomuspá ársins núna er gert ráð fyrir um 15,6 milljarða afgangi. Gert er ráð fyrir stigbatnandi afkomu til ársins 2021.

Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar hafa lækkað jafnt og þétt frá 2012. Langstærstur hluti skuldanna er hjá Orkuveitu Reykjavíkur.  Skuldahlutfall  samstæðunnar hefur lækkað úr 268% frá árinu 2012 í 184% árið 2017 og verður komið niður fyrir 150% viðmið í sveitarstjórnarlögum árið 2021.  Ef skuldir OR eru dregnar frá,  sem borginni ber að gera samkvæmt lögum um sveitarstjórnir, verður skuldahlutfallið 2017 aðeins 108%. Þetta þýðir að fjárhagur borgarinnar er traustur.

 

 

Frumvarp að fjárhagsáætlun 2017 og fimm ára áætlun 2017 - 2021