Velferðarráð samþykkir að auka framboð á félagslegu húsnæði

Mannréttindi Velferð

""

Velferðarráð samþykkti tillögu á fundi sínum í dag sem miðar að því að auka framboð á félagslegu húsnæði til skamms tíma í samræmi við húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar.

Uppbygging félagslegs húsnæðis er þegar hafin af miklum krafti í borginni. Á meðan íbúðirnar rísa skapast bið eftir húsnæði sem þarf að leysa. Tillaga velferðarráðs er svohljóðandi:

Velferðarráð fagnar metnaðarfullri húsnæðisáætlun sem gerir ráð fyrir mikilli fjölgun félagslegra íbúða, sértækra búsetuúrræða og annarra leiguíbúða og búseturéttaríbúða á næstu árum. Slík uppbygging stuðlar að heilbrigðari húsnæðismarkaði. Mikilvægt er að önnur sveitarfélög láti sitt ekki eftir liggja þannig að vandinn leysist eins fljótt og nauðsynlegt er.



Til að flýta enn frekar fjölgun félagslegra íbúða og brúa bilið fyrir fjölskyldur á meðan á uppbyggingunni stendur leggur velferðarráð fram eftirfarandi tillögur:

1. Félagsbústaðir hefji byggingu á tveimur til fjórum litlum fjölbýlishúsum með 8 – 10 einstaklingsíbúðum með fjölbreytileika og félagslega blöndun í huga.

2. Samhliða kaupum Félagsbústaða á 1- 2 herbergja íbúðum á almennum markaði verði gert átak í að fjölga íbúðum fyrir barnafólk. 

3. Tryggt verði fjármagn til kaupa eða leigu á íbúðum sem verði nýttar sem skammtímalausnir þar til þær íbúðir Félagsbústaða sem eru í undirbúningi, s.s. í gegnum leigufélögin Bjarg og Búseta verða tilbúnar. Velferðarsvið hefur nú þegar hafið vinnu við útfærslu hugmynda að framkvæmdinni, það er inntökuferli í bráðabirgðahúsnæði, rekstur og aðra umsýslu.

4. Í framhaldi af greiningu velferðarsviðs á stöðu barnafjölskyldna í mikilli þörf fyrir húsnæði verði gerð áætlun fyrir hverja fjölskyldu, þar sem horft verði á skammtímalausnir þar til hægt verður að tryggja varanlegt húsnæði á vegum Félagsbústaða.

Á fundi velferðarráðs var einnig tilkynnt að í dag hafi 27 félagslegum íbúðum verið úthlutað, þar af 18 almennum leiguíbúðum og níu þjónustuíbúðum fyrir aldraða.

Núna eru 1.081 einstaklingur á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík en þar af eru 782 metnir í mikill þörf fyrir húsnæði og 299 í þörf fyrir slíkt húsnæði. 75 % umsókna eru um einstaklings- og tveggja herbergja íbúðir en Félagsbústaðir, sem áttu 1.926 félagslegar íbúðir í árslok 2016 eiga í dag um 10% af öllum tveggja herbergja íbúðum í Reykjavík.  Reykjavíkurborg á langflestar félagslegar íbúðir sé miðað við önnur sveitarfélög og íbúafjölda.