Vel miðar í ráðningum í skóla- og frístundastarfi

Skóli og frístund

""

Þótt enn vanti 66 leikskólakennara og 8 grunnskólakennara í borginni miðar vel í ráðningum í skóla- og frístundastarfinu. 

Enn er ómannað í 108 stöðugildi í leikskólum borgarinnar, 25 stöðugildi í grunnskólum og 113 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum.  

Í 64 leikskóla borgarinnar vantar 11 deildarstjóra, 66 leikskólakennara og 17 stuðningsfulltrúa. Í liðinni viku vantaði 14 deildarstjóra, 75 leikskólakennara og 19 stuðningsfulltrúa inn á leikskólana.

Í 36 grunnskóla borgarinnar er óráðið í átta kennarastöður, 10 stöður stuðningsfullrúa og sex stöður skólaliða. Einnig vantar einn starfsmann í mötuneyti. Í liðinni vantaði 18 kennara í grunnskólana, 17 stuðningsfulltrúa, 16 skólaliða, auk þriggja þroskaþjálfa og fjögurra starfsmanna í mötuneyti.  

Í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum er óráðið í 114 stöðugildi sem jafngildir um 226 starfsmönnum í 50% störf. Þar af vantar 74 starfsmenn í störf með fötluðum börnum og ungmennum. Til samanburðar var í liðinni viku óráðið í 135 stöðugildi í frístundastarfinu sem jafngilti 262 starfsmönnum í hlutastarfi.

Í fyrra voru fyrstu tölur um ráðningar teknar saman 17. ágúst. Þá  átti eftir að ráða í tæp 102 stöðugildi í leikskólum, tæp 43 stöðugildi í grunnskólum og 127 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum.