Útimarkaður við Menntaskólann við Sund

""
Árlegur útimarkaður Íbúasamtaka Laugardals (ÍL) verður haldinn í 14. skiptið laugardaginn 27. ágúst kl. 11-16 og verður þetta árið staðsettur á bílastæðum Menntaskólans við Sund.
Markaðurinn er eins konar „sprett-upp“ viðburður þar sem honum er fundinn nýr staður á hverju ári gagngert til þess að vekja athygli á áhugaverðum opnum svæðum í 104 og 105 Reykjavík. Viðburðurinn stækkar með hverju árinu. Nú eru skráðir seljendur ríflega 150 og í fyrra sóttu markaðinn þúsundir gesta.  
 
Útimarkaðurinn hefur ávallt verið haldinn að frumkvæði íbúa sem leggja mikið á sig til að búa til og viðhalda markaðsstemningunni sem er einstök. Á markaðnum, sem einkennist af gleði, má selja allt milli himins og jarðar og öllum er heimil þátttaka. Ávallt er mikið fjör á markaðsdegi enda eru skemmtilegar uppákomur stór hluti af aðdráttarafli hans því mikið af skemmtilegu hæfileikafólki býr í Laugardal og nágrenni.

Markmiðin með útimarkaði ÍL eru að skapa skemmtilegan hverfisbrag, að efla samskipti á jákvæðum nótum, opna augu íbúa fyrir áhugaverðum svæðum í nærumhverfinu og stuðla að vistvernd með því að leggja áherslu á hvers kyns endurnýtingu. Í anda vistverndar eru markaðsgestir hvattir til þess að sækja markaðinn gangandi, hjólandi eða með strætó.

Óhætt er að segja að útimarkaðurinn auðgi mannlíf svo um munar en hann er einstakur og ógleymanlegur öllum þeim sem taka þátt í honum með einum eða öðrum hætti; seljendum, kaupendum, skemmtikröftum og mannlífsunnendum.

Útimarkaður ÍL hefur orðið íbúum annarra hverfa fyrirmynd og hvatning. Á www.facebook.com/laugardalur má fræðast nánar umútimarkaði ÍL og skoða myndir frá mörkuðum undanfarinna ára.

 
Verið velkomin á útimarkaðinn!