Ungt fólk vill búa í miðborginni en skortur á leiguíbúðum

Skipulagsmál

""

Samkvæmt greiningu sem Capacent hefur gert fyrir Reykjavíkurborg er algengast að fólk á landsbyggðinni horfi til Reykjavíkur þegar það flytur á höfuðborgarsvæðið. Sérstaklega er áberandi að ungt fólk vill flytja í mið- og vesturbæ Reykjavíkur eða ríflega átta af hverjum tíu á aldrinum 18-24 ára. Þannig einkennir ungur aldur, lágar tekjur og óskir um litlar íbúðir þá sem helst vilja flytja í miðborgina. 

Í greiningunni kemur fram að íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar á sama tíma og gera má ráð fyrir að íbúum fækki á hverju heimili og því megi ætla að fjölgun íbúða á höfuðborgarsvæðinu verði hlutfallslega meiri en nemur íbúafjölgun. 37% þeirra sem vilja flytja á höfuðborgarsvæðið óska eftir íbúð með tveimur svefnherbergjum, en skortur er á slíkum íbúðum á meðan offramboð virðist vera á íbúðum sem eru stærrri en 150 fermetrar. Um 53% þeirra sem vilja flytja í póstnúmer 101, 105 eða 107 eru á aldrinum 18-34 ára. Athygli vekur að þetta eru tekjulægstu aldurshóparnir, en dýrustu hverfin þegar litið er til húsnæðis- og leiguverðs.

Greining Capacent bendir til þess að forsendur séu fyrir rekstri leigufélaga með litlar íbúðir þar sem fleiri geri ráð fyrir að flytja í leiguhúsnæði og leiguverð hafi hækkað. Skortur sé á leiguhúsnæði ef litið er til næstu þriggja ára og þurfi að fjölga leiguíbúðum um ríflega 4000 til að mæta þörfinni. Væntingar leigjenda eru um að greiða á bilinu 1.500 – 2.300 krónur á fermetra fyrir íbúðir allt að 90 fermetrum með 1-2 svefnherbergi.

Samkvæmt lífskjararannsókn Evrópusambandsins greiða Íslendingar að jafnaði fjórðungi ráðstöfunartekna sinna í húsnæði,eða svipað og nágrannaþjóðirnar. Könnun Capacent leiðir þó í ljós umtalsverðan mun eftir tekjuhópnum þegar litið er til fjölskyldutekna. Þannig greiði þeir tekjulægstu meira en 45% fjölskyldutekna í húsnæði.

Tæpur fjórðungur Íslendinga segist líklegur eða öruggur um að leigja næst þegar skipt er um húsnæði, enda þótt leiguverð hafi hækkað meira en kaupverð frá ársbyrjun 2011. Flestir leigjendur á höfuðborgarsvæðinu eru tekjulágir, ungir, vilja litlar íbúðir og greiða 80-160 þúsund krónur í leigu á mánuði.

Sjá greiningu Capacent.