Tilmæli um að aka ekki í Heiðmörk

Heilbrigðiseftirlit

""

Ökumenn eru vinsamlegast beðnir um að aka ekki vegi á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. Vegir eru varasamir og hætta á slysum. 

Af gefnu tilefni vill Framkvæmdastjórn um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu beina því til fólks að fara ekki akandi inn á vatnsverndarsvæðið í Heiðmörk í því erfiða færi sem ríkir um þessar mundir.

Engin vetrarþjónusta á vegum er í Heiðmörk og því er ekki fært fyrir umferð bifreiða. Svæðið er útivistarsvæði fyrir gangandi vegfarendur og við núverandi aðstæður fyrir fólk á gönguskíðum. Hverskonar akstur innan svæðisins getur ógnað öryggi vatnsverndar. Jarðlög í Heiðmörk eru gljúp vegna hrauns, stutt er niður á grunnvatn og því er svæðið viðkvæmt m.t.t. þess að mengun berist í grunnvatnið og spilli neysluvatninu. Því er mikilvægt að allir umgangist svæðið af virðingu og fylgi þeim reglum sem um það gilda.

Þessi tilmæli eru frá framkvæmdastjórum heilbrigðiseftirlitssvæða á höfuðborgarsvæðinu sem mynda sameiginlega framkvæmdastjórn en þau eru Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis.