Tillögur um að breyta hraðamörkum á völdum svæðum

Samgöngur

""

Stefnt er að því að breyta hraðamörkum í tveimur áföngum um 10 km/klst á götum vestan Kringlumýrarbrautar þar sem hraðamörk í dag eru 50 eða 60 km/klst. auk þess verði svæðum með 30 km/klst. hámarkshraða fjölgað og núverandi svæði stækkuð.

Reykjavíkurborg vinnur að því, í samræmi við Aðalskipulag 2010-2030 og aðra stefnumótun, að bæta umhverfisgæði borgarinnar. Borgin vill m.a. gera sitt til að vinna gegn loftslagsbreytingum, draga úr svifryksmengun, fækka slysum og auka öryggi fyrir óvarða vegfarendur og ökumenn. Mörg úrræði koma til greina til að stuðla að þessu. Ein leið sem farin hefur verið erlendis til að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar í borgarbyggð er að draga úr hraða.

Skýrsla starfshóps samþykkt

Skýrsla starfshóps um umferðarhraða vestan Kringlumýrarbrautar var lögð fram af þessu tilefni í umhverfis- og skipulagsráði nýlega og var samþykkt af meirihlutanum. Í skýrslunni er meðal annars vitnað í niðurstöður mælinga á mengun og fjölda slysa fyrir og eftir lækkun hraðamarka í borgum í Svíþjóð, Finnlandi og Ástralíu.  Rannsóknirnar sýna að mengun minnkar og slysum fækkar við lækkun hámarkshraða úr 50 km/klst. í 40 km/klst., afkastageta gatna er óbreytt en meðalferðatími ökutækja eykst um 3-5%.

Tillögur starfshópsins fela m.a. í sér:

  • Að hraðamörk verði í tveimur áföngum lækkuð um 10 km/klst. á götum vestan Kringlumýrarbrautar þar sem hraðamörk í dag eru 50 eða 60 km/klst. auk þess sem að svæðum með 30 km/klst. hámarkshraða verði fjölgað og núverandi svæði stækkuð.
  • Gönguleiðir þvert á umferðargötur með 40 eða 50 km/klst. hámarkshraða, t.d. á Hringbraut við Framnesveg og Hofsvallagötu verði upphækkaðar og merktar með skýrari hætti en í dag.
  • Aukna notkun sjálfvirkra hraðamyndavéla.
  • Hraðavaraskilti (sem blikka ef ökumenn aka yfir hámarkshraða).
  • Lýsing á gönguþverunum verði skoðuð sérstaklega og bætt.

Tillögur starfshóps eru gerðar með fyrirvara um samþykki lögreglustjóra. Tillögur um breytingar á hraðamörkum verði kynntar Samgöngustofu, Vegagerðinni, Strætó bs., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, FÍB, LHM og viðkomandi hverfisráðum áður en þær komi til framkvæmda.

Umhverfis- og skipulagsráð skipaði í starfshópinn, fulltrúa Samfylkingarinnar Sverri Bollason, áheyrnarfulltrúa Pírata Sigurborgu Ó. Haraldsdóttur og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins Ólaf Kr. Guðmundsson sem skilaði séráliti.

Tengill

Skýrsla starfshóps um umferðarhraða

Tillaga starfshóps að nýjum hraðamörkum á umferðargötum er sýnd á korti að neðan: