Þörungablómi í Tjörninni

Umhverfi Mannlíf

""
Glöggir vegfarendur við Reykjavíkurtjörn hafa án efa tekið eftir því að síðustu daga hefur sést óvenjuleg, litskrúðug brák á nokkrum stöðum á Tjörninni. Þessi brák myndast vegna þess að ákveðnir blágrænir þörungar eða gerlar fjölga sér of hratt og mynda blóma, sem byrjar sem grugg en endar sem skán sem flýtur ofan á vatninu. Þess er óskað að á meðan þessu stendur að fólk gefi alls ekki öndunum brauð.
Þetta fyrirbæri kallast ofauðgun og gerist vegna þess að magn næringarefna verður of mikið. Þetta er þekkt ástand í stöðuvötnum á sumrin en er ekki ákjósanlegt. Líkurnar á þessu eru sérstaklega miklar þegar hitastig vatnsins hækkar á hlýjum og sólríkum dögum eins og eru um þessar mundir og þegar vatnsblöndun er lítil vegna hægs rennslis.
 
Það kemur því ekki á óvart að þetta hefur einkum gerst við austur- og norðurenda Norðurtjarnar þar sem hvað minnst hreyfing er á vatninu,  þéttleiki fugla mikill og brauðgjöf einnig mest áberandi. Þar hefur því orðið staðbundin ofauðgun.
 
Miðað við gott ástand Tjarnarinnar annars staðar, þar sem mikill vöxtur þráðnykru og annarra háplöntutegunda hefur leitt til þess að vatnið er almennt hreinna og tærara, er ekki búist við því að þetta ástand eigi eftir að versna mikið, en þó má reikna með að það haldist meðan veðrið er svo hlýtt og stillt.
 
Brákin er mjög áberandi og fremur ógeðfelld og af henni getur verið sterk lykt. Hún er ekki talin hættuleg en fólki er ráðlagt að vera ekki að snerta hana að óþörfu. Starfsmenn borgarinnar hafa því reynt að brjóta hana upp og dreifa úr henni og koma þannig í veg fyrir að hún hamli það að sólarljós berist til gróðursins sem er undir. Vonast er til að slík tímabundin úrræði komi í veg fyrir að ástandið versni og til að draga úr ónæði af þörungablómanum.
 
Ítrekuð er sú ósk að fólk gefi alls ekki öndunum brauð, því ekki sé skynsamlegt að bæta við meira magni af lífrænum efnum út í Tjörnina. Almennt er mælt til þess að brauðgjöf sé hætt yfir sumartímann, því næg fæða er fyrir endur og andarunga í Tjörninni, auk þess sem brauðgjöfin laðar að máfa. En nú er sérstaklega mikilvægt að brauðgjöf sé hætt !