Sumarsmiðjur kennara 2017

Skóli og frístund

""

Hátt í þrjátíu námskeið eru í boði fyrir grunnskólakennara í sumarsmiðjum sem haldnar verða dagana 9. - 11. ágúst í Langholtsskóla. Námskeiðsgjald er 4000 kr. nema annað sé tekið fram. 

Skráning á námskeiðin

Námskeiðslýsingar

1. Bekkjarstjórnun og hvetjandi námsumhverfi
Markhópur: Allir kennarar.
Á námskeiðinu verður fjallað um bekkjar- eða hópastjórnun og leiðir til að skapa hvetjandi námsumhverfi fyrir nemendur á grunnskólaaldri. Gefið verður yfirlit yfir gagnreyndar aðferðir til að fyrirbyggja og draga úr erfiðri hegðun samhliða því að festa jákvæða hegðun og líðan í sessi. Fjallað verður um lausnamiðað viðhorf, góðan liðsanda, skipulag, væntingar, samskipti og fjölbreyttar leiðir til að hvetja nemendur til að sýna viðeigandi hegðun.  Einnig verður kennt að nota einfaldan matslista um bekkjarstjórnun sem gerir kennurum kleift að meta að hve miklu leyti verið er að nota vinnubrögð sem hafa reynst vel og ígrunda eigin starfsaðferðir.
Eftirfylgd 3 kennslustundir verður síðar á skólaárinu.
Kennarar:  Dr. Anna-Lind Pétursdóttir, sálfræðingur og Guðrún Björg Ragnarsdóttir, kennari.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 9. ágúst  kl. 13 – 16.

2. Fjármálalæsi unglinga
Markhópur: Kennarar á unglingastigi.
Markmið námskeiðsins er að efla færni þátttakenda í kennslu um grunnþætti fjármála. Fræðsla um kennsluefni um grunnþætti fjármála einstaklinga á vegum Fjármálavits og hvernig hægt er að nýta það í kennslu í grunnskólum.
Um Fjármálavit
Fjármálavit er námsefni fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla, þróað af Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) í samvinnu við kennara og kennaranema. Tilgangurinn er að veita innblástur í kennslu um fjármál og stuðla að aukinni kennslu um fjármál einstaklinga í grunnskólum. Námsefnið er byggt upp sem sjálfstæðar kennslustundir með umræðum og verkefnum, en til stuðnings eru einnig stutt myndbönd sem nemendur geta horft á til að tengja við viðfangsefnið.

Fjölmargir starfsmenn fjármálafyrirtækja um allt land hafa sinnt heimsóknum Fjármálavits til 10. bekkinga en allflestir grunnskólar landsins hafa fengið heimsókn tvisvar til þrisvar sinnum frá því Fjármálavit byrjaði fyrir þremur árum. Heimsóknir eru skólum að kostnaðarlausu og í boði yfir allt skólaárið  en síðastliðinn vetur fengu um 97% nemenda í 10. bekk heimsókn.
Kennarar: Sérfræðingar á vegum Fjármálavits.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 10. ágúst kl. 9 – 12.
Námskeiðið er kennurum að kostnaðarlausu

3. Kennsluaðferðir á unglingastigi- Efnafræðikennsla.
Markhópur: Kennarar á unglingastigi.
Makmiðið er að kynna aðferð sem notuð er við efnafræðikennslu í Kvennaskólanum í Reykjavík og getur nýst við hvaða námsgrein sem er. Tveir raungreinakennarar við Kvennaskólann hafa þróað kennsluaðferðir  í efnafræði  sem vakið hafa athygli. Fleiri nemendur hafa náð góðum tökum á greininni, áhuginn hefur aukist og tími þeirra nýtist betur.  Kennararnir segja: Okkar lending varð sú að færa áhersluna af okkur og hvað við vorum duglegar í efnafræði og yfir á nemandann. Leyfa (kenna) honum að bera ábyrgð á sínu námi og kenna honum á tæki og vinnulag sem hann getur notað til að tileinka sér okkar fag, - nú eða hvaða fag sem er ef út á það er farið.
Kennarar: Elva Björt Pálsdóttir og  Ragnheiður Rósarsdóttir. Kennarar við Kvennaskólann.
Staðsetning: Langholtsskóli.
Dags. og tími:  9. ágúst  Kl. 13-14:20.
Þátttökugjald kr. 2500

4. Greining og hvað svo?
Markhópur: Umsjónarkennarar, kennarar, sérkennarar
Markmið: Að efla kennara í að nýta niðurstöður greininga við skipulag og framkvæmd kennslu.
Viðfangsefni: Farið verður í forsendur og innihald mismunandi greininga og mögulega nýtingu þeirra í námi og skólastarfi.
Kennarar:Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, sálfræðingur þjónustumiðstöð Breiðholts, Anna María Jónsdóttir, kennsluráðgjafi þjónustumiðstöð Breiðholts og Kristín Ármannsdóttir, kennsluráðgjafi þjónustumiðstöð Breiðholts
Staðsetning Langholtsskóli
Dags. og tími: 10. ágúst kl. 9 – 15 og  eftirfylgnifundur í október

5. Spjaldtölvur á yngsta stigi
Markhópur: Kennarar á yngsta stigi.
Markmið námskeiðsins er að kynna fjölbreytta möguleika snjalltækja í skólastarfi og gefa yfirlit yfir margvíslegar bjargir sem kennarar nemenda á yngsta stigi geta nýtt sér

Á námskeiðinu verður fjallað um möguleika spjaldtölva í skólastarfi, hagnýtum dæmum um notkun spjaldtölva á yngsta stigi miðlað og gagnlegar upplýsingaveitur á netinu kynntar. Skapandi notkun og valin smáforrit sem tengjast stærðfræði og fjölbreyttu læsi verða til skoðunar.
Æskilegt er að þátttakendur hafi með sér spjaldtölvu á námskeiðið.
Fyrirkomulag: Kynningar, hagnýt og fjölbreytt verkefnavinna og umræður.
Kennarar: Rakel. G. Magnúsdóttir og Bjarndís Fjóla Jónsdóttir.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími:  10. og 11.ágúst  kl. 8:30 – 12:00 báða dagana.

6. Spjaldtölvur fyrstu skrefin.
Markhópur: Allir kennarar.
Markmið námskeiðsins er að kynna fjölbreytta möguleika snjalltækja í skólastarfi og gefa yfirlit yfir margvíslegar bjargir sem kennarar sem eru að stíga sín fyrstu skref í notkun snjalltækja í skólastarfi geta nýtt sér.

Á námskeiðinu verður fjallað um möguleika spjaldtölva í skólastarfi, hagnýtum dæmum um notkun spjaldtölva miðlað og gagnlegar upplýsingaveitur á netinu kynntar.  Farið verður í helstu stillingar og grunnatriði við notkun spjaldtölva og valin smáforrit skoðuð sérstaklega.
Æskilegt er að þátttakendur hafi með sér spjaldtölvu á námskeiðið.
Fyrirkomulag: Kynningar, hagnýt og fjölbreytt verkefnavinna og umræður.
Kennarar: Sérfræðingar á þessu sviði.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 9.og 10. ágúst kl. 13 – 16:30 báða dagana.

7. Hugskot, skamm-, fram- og víðsýni
Markhópur: Allir kennarar sem vilja skapa betra samfélag,
Markmið námskeiðsins er að efla gagnrýna hugsun og hvers konar færni til að greina og meta áreiti og áróður í samfélaginu. Á námskeiðinu er m.a. greint frá samhenginu á milli flokkana, staðalímynda og fordóma. Þá er fjallað um jafnréttismál, friðarmenningu, borgaravitund og visku. Fjölmörg nýleg dæmi verða nefnd til sögunnar og rými gefið fyrir umræðu.

Byggt er á efni bókarinnar Hugskot- skamm-, fram- og víðsýni eftir Gunnar Hersvein og Friðbjörgu Ingimarsdóttur sem hefur hlotið lofsamlega dóma.
Kennarar: Gunnar Hersveinn heimspekingur og rithöfundur, Friðbjörg Ingimarsdóttir MA i mennta- og menningarstjórnun og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari í Borgarholtsskóla.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími:  10. ágúst kl. 9-12

8. Sjálfsmynd og sjálfstraust barna og unglinga
Markhópur: Kennarar og námsráðgjafar
Markmið: Sjálfsmynd er veigamikill þáttur í andlegri líðan. Hún hefur áhrif á það hvernig við hugsum, tölum og hegðum okkur. Þeir sem eru með góða sjálfsmynd eru líklegri til að hafa raunsæja sýn og þekkingu á sjálfa sig en þeir sem eru með slæma sjálfsmynd. Lítið sjálfstraust getur haft mikil áhrif á líðan og getu í skólanum. Einstaklingar með lítið sjálfstraust eiga það til að vanmeta hæfni sína og forðast því að takast á við krefjandi verkefni. Áhersla verður lögð á að efla þekkingu þátttakenda á sjálfsmynd og sjálfstrausti barna og unglinga. Þátttakendur fá hugmyndir að verkefnum er tengjast sjálfsmynd og sjálfstrausti og fá þeir einnig tækifæri til að prófa hin ýmsu verkefni.
Inntak: Fyrirlestur og verkefni
Kennari: Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðikennari og námsráðgjafi (MS í sálfræði)
Staðsetning: Langholtsskóli
Tími og dags. 11. ágúst kl. 9 – 13

9. Stærðfræði á miðstigi
Markhópur: Einkum kennarar á miðstigi.
Markmiðið námskeiðsins er að skoða kennsluhætti í stærðfræði  í takt við aðalnámskrá þar sem áhersla er á tjáningu og miðlun, sjálfstæði og samvinnu og skapandi og gagnrýna hugsun.
Þátttakakendur munu  skoða verkefni og athuga hvernig nemendur vinna þau og fá dæmi um hvernig hægt er að meta þau.
Kennari: Kristjana Skúladóttir, kennari í Melaskóla
Staðsetning: Langholtsskóli
Tími og dagsetning: 11. ágúst kl. 9 – 11:30

10. Hvað segir frúin í Hamborg við þessu?
Markhópur: Allir kennarar
Markmið námskeiðsins: Hvernig virkjum við börn til að kanna eigin sköpunargáfu og læra um tónlist, náttúruna og vísindi með hjálp nútímatækni? Grunnurinn er Biophilia „appakerfið“ sem samanstendur af tónlist Bjarkar og gagnvirku kennsluefni. Áhersla á nemendamiðað nám, að læra með því að taka virkan þátt, semja tónlist og starfa saman. Þátttakendur öðlast þá kunnáttu sem þarf til að þróa tónlistargáfuna, þenja sköpunargáfuna til hins ýtrasta og búa til sjálfsprottna og óþvingaða tónlist út frá náttúrulögmálum og -fyrirbærum.
Inntak námskeiðsins: Að kennarar kynnist hugmyndafræði Biophilia verkefnisins, læri um þverfaglegar nálganir lista og vísinda, læri á Biophilia appið, áhersla hlutverk sköpunar og ímyndunarafls í námi og kennslu.
Kennarar: Martin Swift, efnafræðingur og vísindamiðlari hjá Vísindasmiðju Háskóla Íslands og Ragna Skinner, tónlistarkona, tónlistarkennari og hljóðtæknifræðingur.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími:10. ágúst kl. 8:30 - 15:30

11. Námsmat við lok grunnskóla
Markhópur: Einkum kennarar á unglingastigi.
Markmið námskeiðsins er að efla færni þátttakenda í námsmati á unglingastigi í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Um er að ræða kynningar og umræður.
Kennarar á námskeiðinu eru reyndir grunnskólakennarar sem hafa tekið þátt í þróun á nýju námsmati.
Staðsetning og tími: Langholtsskóli
Dags. og tími: 10. ágúst kl. 13 – 15.
Þáttökugjald kr. 2.500

12. Náttúrulæsi - miðstig
Markhópur: Náttúrufræðikennarar á miðstigi
Markmið námskeiðs: Að kynna fyrir náttúrufræðikennurum á miðstigi verklag framúrskarandi finnskra og íslenskra kennara við að nýta náttúrufræðina til að vinna með náttúrulæsi, hagnýtt læsi og  lesskilning.
Viðfangsefni: Rýnt verður í aðalnámskrá grunnskóla 2013 í náttúrugreinum, hún borin saman við finnska aðalnámskrá og hvernig má nýta hæfniviðmið, matsviðmið og fyrirmyndarverkefni til að efla náttúrulæsi nemenda á miðstigi. Einnig verður skoðað hvernig nýta má upplýsinga- og tæknimennt í því skyni að efla náttúrulæsi nemenda á miðstigi.
Kennarar: Finnski náttúrufræðikennarinn Rita Keskitalo sem hlotið hefur verðlaun og viðurkenningu sem framúrskarandi kennari og námsefnishöfundur og Sigrún Þóra Skúladóttir, náttúrufræðikennari í í Háteigsskóla. Fyrirlestrar eru á ensku en verða þýddir á staðnum eftir þörfum.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími:  9. ágúst kl. 9 – 16 og  eftirfylgnifundur í sept.

13. Náttúrulæsi – unglingastig
Markhópur: Náttúrufræðikennarar á unglingastigi
Markmið námskeiðs: Að kynna fyrir náttúrufræðikennurum á unglingastigi verklag framúrskarandi finnskra og íslenskra kennara við að nýta náttúrufræðina til að vinna með náttúrulæsi, hagnýtt læsi og  lesskilning.
Viðfangsefni: Rýnt verður í aðalnámskrá grunnskóla 2013 í náttúrugreinum, hún borin saman við finnska aðalnámskrá og hvernig má nýta hæfniviðmið, matsviðmið og fyrirmyndarverkefni til að efla náttúrulæsi nemenda á unglingastigi. Einnig verður skoðað hvernig nýta má upplýsinga- og tæknimennt í því skyni að efla náttúrulæsi nemenda á unglingastigi.
Kennarar: Finnski náttúrufræðikennarinn Rita Keskitalo sem hlotið hefur verðlaun og viðurkenningu sem framúrskarandi kennari og námsefnishöfundur og Sigrún Þóra Skúladóttir, náttúrufræðikennari í í Háteigsskóla. Fyrirlestrar eru á ensku en verða þýddir á staðnum eftir þörfum.
Staður: Langholtsskóli
Dags. og tími: 10. ágúst kl. 9 – 16 og eftirfylgnifundur í sept.

14. Hagnýtt námskeið í notkun Word og PPT
Markhópur: Allir kennarar sem vilja efla sig í notkun Word og PPT
Efla þekkingu og öryggi þáttaenda við notkun þessara forrita. Flestir þekkja Word og PPT að einhverju leyti og nýta það sem þeir kunna vel en annað ekki. Hér verða kynntir ýmsir þægilegir möguleikar sem hægt er að nota í þessum forritum í daglegu starfi. Með viðbótarþekkingu í notkun þessara forrita er hægt að spara tíma og bæta framsetningu efnis til muna. Farið er ítarlega í gerð taflna, innsetningu mynda og vinnu með þær, notkun á SmartArt og Chart valmöguleikum og ýmislegt fleira.
Kennari: Guðrún Hjartardóttir verkefnastjóri á skrifstofu SFS
Staðsetning: Borgartún 14.  Hrafnhólar, 7. hæð.
Dags. og tími: 9. ágúst kl. 8:30 – 12.

15. Rússíbanalífið mitt.  
Markhópur: Allir kennarar.
Reynsla einstaklings af geðhvörfum sem hann greindist með árið 2009. Þunglyndi, maníur, gleði, sorg og fleira sem hann hefur gengið í gegnum á sinni stuttu lífsleið.
Umsjón: Kristinn Rúnar Kristinsson.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 10.ágúst   kl. 11-12
Námskeiðið er ókeypis

16. Gegn einelti
Markhópur: Allir kennarar.
Á námskeiðinu verður farið yfir ýmis þau atriði sem varða hlutverk og ábyrgð kennara, nemenda og foreldra þegar upp kemur samskiptavandi meðal nemenda á skólatíma. Bent verður á ólíkar leiðir sem fara má til að draga úr líkum á árekstrum milli nemenda, hvernig nýta ber lausnarfærni nemenda í slíkum aðstæðum og hvernig bregðast má almennt við óæskilegum samskiptaháttum nemenda á árangursríkan hátt. Í því samhengi verður rætt m.a. um á hvaða stigi samskiptavanda sé rétt að grípa inn í. Þá er einnig fjallað um frjóar og skapandi leiðir til að bæta skólabrag. Kennarar fá verkfæri og hugmyndir í hendur sem nota má við að bæta bekkjaranda og styrkja hina heilögu þrenningu kennara, foreldra og nemenda.
Kennarar: Sérfræðingar frá Erindi
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 9. ágúst kl. 13 – 16.

17. Opinskátt um ofbeldi
Markhópur: Allir kennarar
Það getur verið vandmeðfarið að ræða á opinskáan hátt um ofbeldi við börn. Birtingarmyndir ofbeldis eru margar og geta verið afar flóknar. Á námskeiðinu verður nýtt kennsluefni kynnt sem ber nafnið Opinskátt um ofbeldi. Kennarar fá þjálfun í að nota efnið í kennslu og farið verður yfir þá þætti sem mikilvægt er að hafa til hliðsjónar þegar ofbeldi er rætt við nemendur. Námsefnið er afrakstur tilraunaverkefnis þar sem leikskóli, grunnskóli og frístundaheimili unnu saman að því að brjóta þögnina sem gjarnan fylgir ofbeldi og þjálfa börn og starfsfólk í að þekkja einkenni ofbeldis, ræða um það og taka afstöðu gegn því. Námsefnið er í formi teikninga á glærum sem hver um sig tekur á ofbeldi í einhverju formi. Með myndunum fylgja leiðbeiningar og spurningar sem kennarar geta stuðst við til að opna á umræður í barnahópnum. Að ræða af einlægni og á opinskáan hátt við börn er liður í því að tryggja velferð og öryggi nemenda. Markmið námskeiðsins er að gera kennara öruggari í því að þekkja einkenni ofbeldis og þjálfa þá í ræða um ofbeldi í kennslustofunni.
Kennarar: Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir kynjafræðingur og fleiri sérfræðingar.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 9. ágúst kl. 13 – 16

18. Vellíðan í skólanum
Markhópur: Allir kennarar
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur hafi grunnþekkingu á viðfangsefninu að námskeiði loknu og geti nýtt sér það til að efla sig á öllum sviðum lífs síns.  Kynnt verða áhrif núvitundar og sjálfs- vinsemdar til að auka vellíðan í skólum, í þeim tilgangi að byggja upp jákvæðan skólabrag, auka á ánægju í starfi og liður í innleiðingu hugræktar heilsueflandi skóla.

Tilfinningar og hugsanir eru skoðaðar í gegnum hinar ýmsu æfingar og rætt um mikilvægi þess að þekkja það ferli sem tilfinningar og hugsanir geta komið af stað. Námskeiðið felur í sér ákveðna sjálfsskoðun þar sem veitt er athygli hvernig eigin líðan er hér og nú og hvað hægt er að gera til þess að bæta líðan sína enn frekar. Einnig er komið inn á hvernig hægt er að tileinka sér núvitaða kennsluhætti og farið yfir ýmsar æfingar sem hægt er að nýta með nemendum í kennslu dags daglega. Áhersla er á virkni þátttakenda því þegar við erum virk í líkama og sál eiga sér stað nýjar taugatengingar í heilanum (þykknun gráaefnisins) sem síðan hafa áhrif á bætta getu okkar til náms og  betri líðans. Við leitumst við að þátttakendur upplifi kyrrð og ró í bland við áhrifaríkar æfingar og fræðslu.
Námsefnið er byggt upp á þann hátt að hægt sé nýta það við innleiðingu á geðræktar/hugræktar hlutanum í heilsueflandi skólum.
Kennarar: Aðalheiður Jensen diplóma á MA stigi í jákvæðri sálfræði og B.ed gráðu í leikskólakennarafræðum , Elísabet Gísladóttir að ljúka meistararannsókn sinni í lýðheilsuvísindum MPH og Erla Súsanna Þórisdóttir ú B.ed gráðu í grunnskólafræðum
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 10. ágúst kl. 9:30 – 14:30

19. Office 365 í skólastarfi
Markhópur: Allir kennarar
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur:

  • Kynnist möguleikum Office 365 í skólastarfi
  • Læri að nota Onedrive til að vinna í og deila skjölum
  • Kynnist Planner og læri að gera plön þar
  • Læri að gera kannanir og próf í Forms
  • Kynnist Microsoft Video og Office Mix
  • Kynnist Sway og notkunarmöguleikum þess
  • Kynnist Onenote Class Notebook, læri að gera nýja bekkjarbók og sjái notkunarmöguleika   þess í vinnu með nemendum
  • Kynnist Microsoft Teams fyrir teymis- og hópavinnu

Kennari: Hjálmur Dór Hjálmsson
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 9. ágúst kl. 13 – 16:30

20. Google lausnir í skólastarfi
Markhópur: Allir kennarar
Markmið námskeiðsins er að kynna möguleika skýjalausna til námsumsjónar, tengja við samvinnunámsmöguleika og beina athyglinni að notkun Google lausna fyrir skólastarf (G Suite for Education).
Fjallað verður um eftirfarandi þætti:

  • Skýjalausnir, samvinnunám og námsumsjón á neti
  • Skólaþróunarverkefni með Google lausnum
  • Helstu verkfæri í skólalausn G Suite: skráarsvæðið (Google Drive), skjöl, töflureiknar, skyggnur, eyðublöð og ýmsar viðbætur.
  • Skólastofan: Google Classroom

Kennari: Björgvin Ívar Guðbrandsson kennari í Langholtsskóla
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 9. ágúst kl. 13-16:30

21. Námsumsjónarkerfið Moodle
Markhópur: Allir kennarar
Helstu möguleikar Moodle-námsumsjónarkerfisins verða kynntir og tekið dæmi af því hvernig áfangar eru settir upp. Fjallað verður um verkefni og áfanga sem til eru á Moodle-vef Reykjavíkurborgar.
Kennarar: Ágúst Tómasson og Anna María Þorkelsdóttir, kennarar.
Staðsetning: VOGASKÓLI
Dags. og tími: 10. ágúst kl.13- 16:30

22. Kennsla nemenda með annað móðurmál en íslensku
Markhópur: Allir kennarar
Á námskeiðinu verður farið yfir kennslu og nám fjöltyngdra nemenda, undirstöðuatriði og aðferðir sem nota má með fjöltyngdum nemendahóp sem stuðla að virku tvítyngdu læsi. Farið verður yfir hagnýtar leiðir í íslenskukennslunni (ÍSA) og í lestrarnámi. Horft verður til eftirfarandi kennsluaðferða við kennslu og nám fleirtyngdra nemenda:
1. Tvítyngd nálgun til kennslu
2. Samvirkt nám / Samvinnunám (e. cooperative learning): CLIL, PALS, CLIM, púslaðferðin
•CLIL –samþætt tungumála- og innihaldsnám (e. content and language integrated learning)
•PALS –samvinnunám og jafningjafræðsla (e. peer assisted learning strategies)
•CLIM –samvinnunám í fjölbreyttum hópum (e. cooperative learning in multicultural groups)
3. Vinnupallaaðferðin í vinnu með tvítyngda læsi (e. scaffolding literacy)
4. Sjálsfsmyndasögur (e. identity texts )
5. Þátttaka nemenda í læsisnámi (e. literacy engagement framework )
6. Notkun alls tungumálaforða (e.translanguaging)
7. Foreldrasamstarf

Markmið námskeiðsins er að dýpka skilning á námsþörfum fleirtyngdra nemenda og að fá verkfæri til þess að styðja við námsárangur þeirra, um leið og stuðlað er að virku tvítyngi.
Kennari: Renata Emilsson Peskova, doktorsnemi við Menntavísindasvið
Staðsetning: Langholtsskóli:
Dags. og tími:  9. 10. og 11. ágúst. Tvo fyrri dagana kl. 13-15.  en síðasta daginn kl. 10 – 12.

23. Hvernig á að matreiða ofnæmisfæði á öruggan hátt?
Markhópur: Heimilisfræðikennarar, einnig stjórnendur og starfsmenn í grunnskólum
Meginmarkmiðið með námskeiðinu er að bjóða upp á faglega fræðslu um fæðuofnæmi, alvarleika þess og hvernig tryggja megi góða og holla næringu. Það getur verið flókið að tryggja öruggt fæði og umhverfi fyrir einstakling með fæðuofnæmi. Ljóst er að næringarefni geta orðið af skornum skammti þegar fæðuofnæmi er til staðar og felst fræðslan m.a. í því hvaða fæðutegundir geta komið í staðinn fyrir mjöl, korn, mjólk egg, fisk, hnetur o.fl. til að fullnægja orku- og næringarlegum þörfum og skapa fjölbreytni í fæðu barna.
Kennarar: Selma Árnadóttir, stjórnarmaður í AO og móðir ofnæmisbarns.
Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur og næringarráðgjafi Eldhúsi Landspítala, formaður AO.
Margrét S. Sigbjörnsdóttir,  kennari og umsjónaraðili með matartæknanemum við Menntaskólann í Kópavogi.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 9. og 10. ágúst kl. 13 – 16 báða dagana.

24. Að takast á við umdeild málefni og skoðanir í skólastofunni
Markhópur: Allir kennarar.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur:

  • Þekki til hvaða málefni geta verið umdeild eða viðkvæm og mikilvægi þess að geta rætt þau við nemendur.
  • Geri sér grein fyrir hvernig eigin skoðanir, reynsla og gildi geta haft áhrif á hvernig við tölum um umdeild og viðkvæm málefni
  • Átti sig á hvernig við sköpum öryggt umhverfi fyrir slíkar umræður
  • Eflist að sjálfstrausti  til að geta tekist á við umdeild málefni og skoðanir

Á námskeiðinu verður fjallað um hvaða umdeildu málefni og skoðanir geta komið upp í skólastarfi og hvernig kennarar geta brugðist við þeim. Þátttakendur fá þjálfun í að takast á við slíkar umræður. Meðal umdeildra og viðkvæmra málefna má nefna kynþáttahatur, hryðjuverk, samskipti kynja, kynvitund og hlutverk foreldra í uppeldi barna sinna.

Dæmi um setningar sem upp geta komið í kennslustofunni:
,,hvað er svona slæmt við að vera rasisti? mamma segist vera það”
,,þú heldur upp á stelpurnar í bekknum”
,,ertu hommi, þú hlýtur að vera það því þú ert alltaf að tala um það”
,,ég hata útlendinga, það er alltof mikið af þeim og þeir taka vinnuna af okkur”
,,hefurðu engar skoðanir, þú tekur aldrei afstöðu þegar við erum að tala saman”

Kennarar námskeiðsins sóttu vinnubúðir á vegum Wergeland stofnunarinnar um "Controversial Issues" í maí sl. sem haldið var í Útey, Noregi. Á sumarnámskeiðinu í ágúst verður kynnt handbók fyrir kennara og annað starfsfólk skóla en menntamálaráðuneytið vinnur nú að þýðingu hennar.

Kennarar: Jón Páll Haraldsson og Guðrún Ebba Ólafsdóttir í Laugalækjarskóla
Linda Heiðardóttir  og Bryndís Haraldsdóttir Réttarholtsskóla.
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími: 11. ágúst kl. 9 – 12.

25. Lesið út í geim og aftur heim
Markhópur: Kennarar á yngsta – og miðstigi
Markmið:  Í málstofunni verða sýnd í máli og myndum fjölbreytt lestrarhvetjandi verkefni sem kennarar geta auðveldlega nýtt í skólastarfi. Sýndar verða myndir og sagt  frá hvernig hægt er að nýta atburði líðandi stundar og þema í námsefni til lestrarhvatningar meðal nemenda.
Sýnt verður hvar og hvernig hægt er að nálgast áhugaverðar hugmyndir sem eru jafnframt einfaldar í framkvæmd. Einnig verður verkefnið Herramannalestur og ritun kynnt. Þar mun Heiða Rúnarsdóttir kynna lestrarhvatningar- og ritunarverkefni fyrir nemendur í 2. og 3. bekk sem tengist sögum Roger Hargreaves um Herramennina.
Kennarar: Heiða Rúnarsdóttir, kennari og bókasafnsfræðingur og Dröfn Vilhjálmsdóttir, bókasafnsfræðingur
Staðsetning: Langholtsskóli
Tími og dagsetning:   11.ágúst kl.  9 - 10.30.
Þáttökugjald kr. 2.500

26. Láttu tæknina vinna með þér
Markhópur: Allir kennarar
Markmið: Markmið námskeiðsins er að kynna gagnleg verkfæri fyrir nemendur með lesblindu og lestrarörðugleika
Inntak: Kynnt verða verkfæri sem nýtast lesblindum og öðrum sem glíma við lestrarörðugleika í námi. Sérstaklega verður unnið með hugbúnað á snjalltækjum, með það fyrir augum að efla sjálfstæði nemenda. Möguleikar þess að tala inn texta og hlusta á texta námsefnis með aðstoð talgervla verða prófaðir.
Fyrirkomulag: Kynningar, hagnýt og fjölbreytt verkefnavinna og umræður.
Kennarar: Hildur Rudolfsdóttir, kennsluráðgjafi
Staðsetning: Langholtsskóli
Dags. og tími 10. ágúst kl. 13-16:30

27. Hvernig eflum við kennslu um mannréttindi? 
Íslandsdeild Amnesty International stendur fyrir þriggja klukkustunda námsmiðju um mannréttindakennslu. Smiðjan er fyrir alla þá kennara sem hafa áhuga á að styrkja hlut mannréttinda í kennslu og hentar kennurum flestra, ef ekki allra, faga.
Markmið námsmiðjunnar er að skapa vettvang til að deila reynslu og efla kennara í mannréttindakennslu. Á smiðjunni verða helstu mannréttindahugtökin skoðuð og kennslufræðileg sýn Amnesty International kynnt. Auk þess verður þátttakendum veitt verkfæri til að nýta í skólastofunni.
Staður og tími: Langholtsskóli, miðvikudaginn 9. Ágúst kl. 13-16.
Lengd: 3 klukkustundir. Námssmiðjan er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Námskeiðsgjald er kr. 4.000 nema annað sé tekið fram