Stytta Einars Benediktssonar flutt að Höfða

Umhverfi Mannlíf

""

Í dag föstudaginn 31. október 2014 eru liðin 150 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar ljóðskálds. Einar átti merkan lífsferil, var ævintýramaður og sennilega hvað víðförlastur sinna samtíðarmanna og dvaldi langdvölum erlendis. Hann var virt skáld og gaf út fimm ljóðabækur. Hann gaf út fyrsta dagblaðið á Íslandi, Dagskrá, og var ritstjóri blaðsins. Hann var eldhugi með sterka félagslega samkennd og vildi lyfta þjóð sinni til mennta og betri vegar.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að flytja styttuna sem Ásmundur Sveinsson gerði af  ljóðskáldinu að fyrrum heimili skáldsins Höfða en Einar bjó með fjölskyldu sinni í húsinu á síðustu öld frá 1914 til 1917 og er minningin um hann því samofin húsinu.

Hugmyndir um að færa styttu Einars Benediktssonar að Höfða eru ekki nýjar af nálinni því reglulega hafa heyrst raddir um að flytja hana einkum á stórafmælum skáldsins. Hópur aðdáenda skáldsins fór þess á leit að láta flytja styttu Ásmundar Sveinssonar af skáldinu frá Klambratúni að Höfða nú þegar 150 ár eru frá fæðingardegi Einars. Þetta er einnig í samræmi við tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 28. ágúst sl.

Lagt er til að styttan verði staðsett á túni austan við Höfða og snúi í áttina að Borgartúni þannig að framhlið hennar blasi við þegar keyrt er að húsinu niður Félagstún.

Mikið er um skráðar fornleifar á lóð Höfða en samþykki hefur fengist fyrir ofangreindri staðsetningu frá Minjastofnun Íslands. Þó girðing hafi líklega verið í námunda við staðinn er talið ólíklegt að ummerki eftir hana finnist. Hins vegar er ljóst að nær húsinu getur styttan ekki verið vegna minja um torfhús.

Reykjavíkurborg leggur til helming kostnaðar á móti fjármagni sem áhugahópur um málið hyggst safna. Kostnaðaráætlun við viðgerð, flutning og frágang við styttuna á nýjum stað er 15 mkr.

Hverfisráði Miðborgar og Hlíða hefur verið falið að koma með tillögu í samráði við íbúa að því hvernig megi nýta til framtíðar þann reit sem stytta ljóðskáldsins hefur staðið á Klambratúni  og nánasta umhverfi þess.