Starfsfólk stundar heilsueflingu og safnar vatni í leiðinni

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Starfsfólk  Reykjavíkurborgar tekur þessa dagana þátt í Heilsuleikum Reykjavíkurborgar 2017 í samvinnu við heilbrigðistæknifyrirtækið SidekickHealth. Leikar hófust 26.apríl og er markmið þeirra að hvetja starfsmenn til að sinna heilsunni með leikgleðina að leiðarljósi

Starfsmenn Reykjavíkurborgar fengu aðgang að smáforriti (appi) sem nefnist Sidekick þar sem er m. a.  hægt að nálgast heilsutengda leiki auk þess sem boðið er upp á áskoranir á milli starfsmanna. Starfsfólk getur bæði notað forritið til heilsueflingar fyrir sig persónulega og sem hluti af liði sem keppir við önnur lið innan borgarinnar í heilsueflandi æfingum og hollu mataræði.

Leikarnir hafa  nú staðið í tvær vikur og hefur þátttaka verið gríðarlega góð en rúmlega tvö þúsund starfsmenn keppast nú um að ná sem flestum stigum bæði í einstaklingskeppni og liðakeppni. Starfsmenn fara í göngutúra, fjallgöngu, stunda hugleiðslu og slökun, huga að matarræðinu eða sinna hvers kyns heilsurækt með það að takmarki að auka eigin vellíðan, safna stigum og bæta heilsuna í leiðinni.
Frá því að leikar hófust hafa þátttakendur gert að meðaltali 11,3 heilsueflandi æfingar á dag á mann og streitulosandi slökunaræfingar í rúmlega eina klukkustund á viku á mann að meðaltali. Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa skráð hlaup og göngur sem nema samanlagt 59.162 km en til samanburðar er fjarlægðin frá Íslandi til Ástralíu 15.185 km. Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa því gengið í skrefum vegalengdina frá Íslandi til Ástralíu og aftur til baka - tvisvar sinnum! Með því að sleppa sætindum í samanlagt 5.217 daga og gosdrykkjum í 8.269 daga á tímabilinu má áætla að þátttakendur hafi sparað sér innbyrt magn af sykri sem nemur hvorki meira né minna en 620 kílóum þessar 2 fyrstu vikur leikanna. 

Það góða við þetta er að um leið og starfsfólk borgarinnar eflir heilsu sína þá safnar það hreinu vatni fyrir börn í neyð, en SidekickHealth og Reykjavíkurborg styrkja UNICEF í hlutfalli við virkni þátttakenda og nú hafa safnast um 139 tonn af vatni.
Það hefur sýnt sig að vinnuveitendur sem hlúa að heilsu starfsmanna hafa ekki eingöngu jákvæð áhrif á starfsmennina og starfsandann heldur getur slík heilsuefling einnig haft áhrif á fjölskyldu starfsmannsins og samfélagið í heild.
Þegar þetta er ritað skipa þessir vinnustaðir þrjú efstu sætin:
1. Búsetukjarninn í Bríetartúni
2. Leikskólinn Seljakot
3. Leikskólinn Jöklaborg
Það getur allt gerst á síðustu metrunum og ljóst að keppnin fer að harðna eftir því sem nær dregur lokadeginum.