Spurt og svarað vegna framkvæmda á Miklubraut við Klambratún

Framkvæmdir Samgöngur

""

Talsvert hefur verið fjallað um breytingar á Miklubraut við Klambratún í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að undanförnu. Hér svara umferðarsérfræðingar borgarinnar nokkrum spurningum sem upp hafa komið í tengslum við breytingarnar.

Hvers vegna eru settir veggir við Klambratún og á móti?

Það er gert til að bæta hljóðvist og umhverfisgæði íbúa við Miklubraut og fyrir þá sem nota útivistarsvæðið á Klambratúni. Veggurinn við Klambratún bætir einnig öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Verkefnið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og Vegagerðin gerir þá kröfu að leitast sé við að hindra að að gangandi vegfarendur geti farið yfir Miklubraut við Klambratún nema á gangbrautarljósum við Reykjahlíð. Í dag er umferð gangandi vegfarenda yfir götuna hindruð með vegriðum og girðingu í miðeyju.  Við hönnun stóð því valið á milli þess að hafa vegrið og girðingu í miðeyju eða lága veggi sitt hvoru megin götunnar. 

Er þetta gert í samráði við íbúa í nágrenninu?

Á skipulagsstigi og við undirbúning framkvæmdar komu ítrekað fram beiðnir íbúa og hverfisráðs Hlíða um að samhliða uppbyggingu strætóreinar yrði hljóðvist bætt og umhverfið fegrað með meiri gróðri.  Að norðanverðu verður grjótveggurinn 1,3-1,5 m yfir akbraut en að hámarki um 1,2 m yfir hæð hjóla- og göngustíga. Að sunnanverðu verður steyptur veggur sem verður um 1,0- 1,2 metra hár. Þeir sem þarna fara um gangandi og hjólandi munu því sjá vel yfir veggina. Á sunnanverðu Klambratúni eru m.a. leikvöllur og körfuboltavöllur og veggurinn við Klambratún mun bæta hljóðvist á túninu.

Hvernig mun þetta líta út að lokum?

Aftan við lága veggi beggja vegna götunnar kemur runnagróður og tré. Umhverfisgæði þeirra sem þarna búa og fara um gangandi og hjólandi munu aukast talsvert frá því sem nú er. Þá á eftir að steypa kantstein og þökuleggja í fláa götumegin við grjótvegg og gróðursetja í miðeyju. Upplifun ökumanna á því mikið eftir að breytast þar sem gatan verður meiri borgargata heldur en hraðbraut. 

Verða gangandi og hjólandi vegfarendur öruggari eftir breytingarnar?

Við hönnun á umhverfinu var sérstaklega hugað að auknu öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og bættri aðstöðu fyrir þá.  Sérfræðingar sem unnið hafa að verkefninu hafa ekki talið ástæðu til að setja upp vegrið til að varna því að bílar aki á veggi norðan eða sunnan götunnar. Um er að ræða götu í grónu borgarhverfi með mikilli umferð og takmörkuðum hraða og aðstæður því aðrar en á vegum þar sem vegrið eru almennt notkun. Ljósastaurar, sem nú standa í götukanti, verða aftan við veggi.

Eykst umferð um þennan vegarkafla vegna breytinganna?

Nei. Fjöldi einkabíla sem ekur um kaflann takmarkast af afkastagetu gatnamóta Miklubrautar og Lönguhlíðar. Þar verða ekki gerðar breytingar og því ekki verið að stuðla að aukinni bílaumferð. Rétt er að taka fram að með tilkomu strætóakreinarinnar þarf að lengja græn- og rýmingartíma gangandi á gönguljósum við Reykjahlíð en það dregur úr afköstum götunnar vegna umferðar bíla á þeim stað. Með uppbyggingu forgangsakreinar fyrir strætisvagna til austurs er verið að draga til muna úr töfum í almenningssamgöngum. Á annatímum mun ferðatími hvers strætisvagns styttast um allt að þrjár mínútur. Um kaflann aka leiðir 1,3 og 6 sem eru þær leiðir í strætisvagnakerfinu sem flytja flesta farþega.  Ferðatímaábati er því mikill vegna breytinganna.

Eykst umferðarhraði við breytingarnar? 

Nei. Við hönnun götunnar var einmitt hugað að því að draga úr umferðarhraða frá því sem nú er. Gróður verður í miðeyju og einnig beggja vegna götunnar og vegrið og girðing í miðeyju hverfa. Rannsóknir hafa sýnt að með því að þrengja sjónsvið ökumanna, t.d. með gróðri og lágum veggjum eins og þarna er gert, dregur úr hraða bílaumferðar. Eins verða sett upp hraðaskilti sem mæla og sýna hraða bíla sem eru að aka inn á kaflann og aðvara ökumenn (með blikki) ef þeir aka yfir hraðamörkum.  Það er vilji borgaryfirvalda að lækka hámarkshraða á Miklubraut á þessum stað úr 60 km/klst í 50. Framangreindar breytingar munu styrkja þá viðleitni en samþykki lögreglu og Vegagerðarinnar þarf til að af því verði.