Snjalltæki mikilvæg í skólaþróun

Velferð Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt tillögur starfshóps um notkun snjalltækja í skólastarfi. Lagt er til að við spjaldtölvuvæðingu grunnskólanna verði áhersla lögð á nemendur í sérkennslu, nemendur með íslensku sem annað mál og vel skilgreind þróunarverkefni.

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum í dag tillögur starfshóps um notkun snjalltækja í skólastarfi. Meðal þess sem ráðið vill gera er að meta notkun upplýsingatækni í grunnskólunum, s.s. fyrirkomulag kennslu og inntak náms, og skoða hvernig bæta megi aðgengi kennara að símenntun í upplýsingatækni. Þá var samþykkt að setja á laggirnar starfshóp til að skoða nýtingu upplýsingatækni í leikskólastarfi.

Á þessu skólaári verður m.a. ráðist í að meta inntak upplýsingatækni í skólanámskrám, aðstöðu, búnað, þjónustu, fagþekkingu, forystu, fyrirmyndarverkefni í upplýsingatækni og tækifæri til umbóta. Þá verður leitað leiða til samstarfs við símennunaraðila um átak í fræðslu til kennara um möguleika upplýsingatækni, m.a. í samstarfi við Menntavísindasvið HÍ.

Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að við spjaldtölvuvæðinguna verði sérstök áhersla lögð á nemendur í sérúrræðum, nemendur með íslensku með annað mál, vel skilgreind þróunarverkefni og verkefni tengd almennri kennslu. Jafnframt að hugað verði að jöfnuði nemenda varðandi aðgengi að búnaði og tryggt verði að þráðlaus net skóla verði í senn öflug, örugg og nægilega opin til að nýtast í kennslufræðilegu samhengi.

Í greinargerð með tillögu meirihlutans í skóla- og frístundaráði segir m.a.
- Nýleg dæmi um skóla sem hafa tekið frumkvæði í notkun snjalltækja hafa leitt í ljós ýmis jákvæð áhrif sem tengja má við aukna námsvirkni, áhuga og einstaklingsmiðun, meira sjálfstæði nemenda í námi, aukna faglega þróun kennara og ánægju foreldra.

Einnig segir í tillögu um nýtingu upplýsingatækni í leikskólastarfi;
- Ef gætt er að samfellu skólastiga má nýta spjaldtölur sem eðlileg og gagnleg verkfæri sem ríma vel við læsisáherslur og starfshætti bæði í leikskólum og yngstu bekkjum grunnskólans. Því er æskilegt að í læsis- og lestrarstefnum leik- og grunnskóla og í samráði um samfellu skólastiga sé upplýsingum um spjaldtölvuverkefni miðlað milli samstarfsaðila.

Sjá skýrslu starfshóps um snjalltæki í skólastarfi.