Sjósundsgarpur hlýtur viðurkenningu

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa í vetur stundað sjósund í Nauthólsvík sér til heilsubótar. Sjósundið er liður í heilsueflingu meðal starfsmanna sem Margrét Leifsdóttir heilsumarkþjálfi og arkitekt hefur leitt. Markmiðið með heilsueflingunni er að hvetja starfsmenn til að hreyfa sig, fara í göngu, sjósund, skokka og huga að andlegri líðan.

Sjósundið er vinsælt og fara um 15  til 20 manns í hádeginu einu sinni í viku og láta vel af. 

Í dag var ákveðið að verðlauna einn úr hópnum, Jóhönnu Haraldsdóttur, sem hefur stundað sjósundið af kappi í vetur. Jóhanna, sem er 68 ára starfar á Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, ákvað að prufa sjósundið og fór varlega í sakirnar í upphafi, óð út í til að venjast hitabreytingunni.  Smátt og smátt fór hún að fara lengra útí og síðastliðinn þriðjudag vippaði hún sér til sunds og synti 250 metra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mætti í Nauthólsvíkina í dag til þess að heiðra Jóhönnu og afhenti henni viðurkenningarskjal fyrir góðan árangur. Ragnheiður Valgarðsdóttir, formaður Sjósunds- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur, afhenti Jóhönnu gjafakort í Nauthólsvík til eins árs.

Jóhanna var að vonum kát og þakkaði kærlega fyrir og hún sagðist ákveðin í að halda sjósundinu áfram sem hún sagði vera allra meina bót.

Því næst dreif borgarstjóri sig í sundföt, skellti sér í sjóinn og synti 250 metra með Jóhönnu og hópnum.