Samstarf um virkni í atvinnuleit

Velferð

""

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnun hafa undirritað samstarfssamning um þjónustu Vinnumálastofnunar við atvinnuleitendur sem fá fjárhagsaðstoð frá borginni.

Samningurinn nær til framhaldsverkefnis um Atvinnutorg og Stíg þar sem áhersla er lögð á ráðgjöf og stuðning við atvinnuleitendur án bótaréttar sem þiggja fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg.

Markmið samstarfssamningsins er að styrkja einstaklinga í atvinnuleit og fækka þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.

Leitast er við að virkja atvinnuleitendur og veita þeim aðstoð sem ýmist hafa klárað bótarétt sinn eða hafa af einhverjum ástæðum ekki áunnið sér þann rétt. 

Velferðarsvið vísar þeim sem í hlut eiga í starfsráðgjöf og vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun samkvæmt sérstöku verklagi.

Reykjavíkurborg mun samkvæmt samningnum greiða Vinnumálastofnun 25 milljónir króna árlega á gildistíma samningsins, sem er tvö ár.  Fjárhæðin samsvarar þremur stöðugildum ráðgjafa ásamt meðfylgjandi rekstrarkostnaði.