Samkynhneigð, úr sveit í borg

Mannlíf Menning og listir

""

Sunnudaginn 27. júlí kl. 15 mun Særún Lísa Birgisdóttir þjóðfræðingur vera með leiðsögn um Árbæjarsafn og fjalla um sögu samkynhneigðra í samhengi við safnið.

Á safninu má finna hús og aðra safngripi sem eru tákn sveitasamfélagsins og upphafs borgarmyndunar í Reykjavík. Í leiðsögninni verður varpað ljósi á ósýnileika samkynhneigðra í íslensku bændasamfélagi og hvaða áhrif þéttbýlisvæðing hafði á stöðu þeirra. Skyggnst verður í íslensk þjóðsagnasöfn frá 19. öld og hinsegin saga rakin allt til hernámsins á 20. öld.

Á sunnudögum býður húsfreyjan í Árbæ upp á nýbakaðar lummur og á baðstofuloftinu situr kona við tóskap. Í haga eru kindur, lömb, kýr og kálfur. Hægt er að fylgjast með mjöltum alla daga kl. 16.00. Þá er minnt á að veitingasala er opin í Dillonshúsi þar sem margs konar góðgæti er á boðstólum.

Aðgangseyrir er 1300 krónur fyrir fullorðna, en ókeypis er fyrir börn yngri en 18 ára og eldri borgara frá 70 ára aldri.

Allir velkomnir!