Sameining félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar

Velferð

""

Velferðarráð hefur samþykkt að halda áfram að sameina félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun í hverfum borgarinnar. Laugardalur Háaleiti reið á vaðið með samþættingu haustið 2011 og hefur verkefnið þótt takast vel, ekki síst hvað varðar heildstæða þjónustu fyrir notendur.

Notandi þarf ekki lengur að sækja annars vegar aðstoð félagsþjónustunnar, þrif, félagsleg innlit og aðstoð við daglegar athafnir og hins vegar heimshjúkrun, heldur starfa báðir aðilar saman við að sníða þjónustuna sem best að þörfum notandans. Með þessu fæst jafnframt betri yfirsýn yfir þarfir hvers og eins og aukinn viðbragðsflýtir.

Með breytingum er komið til móts við þá kröfu samfélagsins að fólk geti búið lengur heima þrátt fyrir færniskerðingu og fjölþætt heilbrigðisvandamál.
Nú stendur til að sameina þjónustuna í Miðborg, Hlíðum og Vesturbænum, sem verður ein þjónustugátt og svokallaðar efri byggðir verði önnur þjónustugátt, þ.e. Breiðholt, Grafarvogur, Kjalarnes, Árbær og Grafarholt.

Sameinuð heimaþjónusta þjónustumiðstöðva Miðborgar og Hlíða og Vesturbæjar verður rekin frá Þorragötu 3 í umsjón þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar en heimaþjónusta í efri byggð verði rekin frá Hraunbæ 119 í umsjón þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts. Dagvist aldraðra, Þorrasel, sem verið hefur í Þorragötu 3 færist í félagsmiðstöðina á Vesturgötu og verður þannig bæði nær félagsstarfi með stuðningi og heilsugæslunni.

Samþætting þjónustunnar er ekki gerð til að hagræða í rekstri heldur til að samþætta og vanda þjónustu. Breytingin verður kynnt nánar fyrir starfsmönnum og öðrum hagsmunaaðilum þegar nær dregur framkvæmdinni sem verður í upphafi næsta árs.