Safnanótt á Vetrarhátíð

Mannlíf Menning og listir

Ragnar Th. Sigurðsson
""

Safnanótt á Vetrarhátíð er í kvöld 3. febrúar en þá opna 45 söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu dyr sínar frá kl. 18-23 og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. 

Safnanótt á Vetrarhátíð er í kvöld 3. febrúar en þá opna 45 söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu dyr sínar frá kl. 18-23 og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið yfir 120 viðburða af öllum stærðum og gerðum í söfnum á höfuðborgarsvæðinu. Það verður m.a. hægt að fara í pulsupartý í Garðskálanum í Gerðarsafni í Kópavogi, gera draugagrímur á Bókasafninu á Seltjarnarnesi, fara á opnun sýningar á verkum Ilmar Stefánsdóttur í Hafnarhúsinu, fara í jóga í Bókasafni Mosfellsbæjar, heyra spennandi þjóðsögu á Hvalasýningunni, sjá ljósasirkus í Borgarbókasafninu Grófinni, fara í fornleifakjallarann á Bessastöðum, sjá alvöru víkinga á Sögusafninu, fara í ratleik í Hönnunarsafninu í Garðabæ, fara til spákonu eða taka þátt í draugagöngu á Árbæjarsafni, sjá norðurljósin í Auroru Reykjavík, skoða myntir í Seðlabankanum, sjá drauga fortíðar í Hinu húsinu, sjá alvöru eldsmiði og víkinga á Landnámssýningunni, hlusta á pönkhljómsveitir í Pönksafninu, kíkja á alls konar merkilegar listsýningar á listasöfnum borgarinnar eða fara í stjörnuskoðun í Bókasafni Hafnarfjarðar.

Safnanæturleikurinn á sér stað á öllum söfnunum en þar geta gestir svarað laufléttum spurningum og unnið árskort á söfn, fallegar gjafir frá söfnunum ásamt öðrum skemmtilegum gjöfum.

Safnanæturstrætó
Sérstakur Safnanæturstrætó gengur á milli safnanna á öllu höfuðborgarsvæðinu og auðveldar gestum heimsóknina. Safnanæturstrætó verður með óvenjulegu sniði í ár en Kvikmyndasafn Íslands hefur útbúið þrjá keyrandi bíósali um borð í strætó og sýnir einstakt heimildarefni af ýmsum toga um borð. Þær kvikmyndir sem eru á dagskrá, eru sérstaklega valdar fyrir hverja leið sem vagnarnir fara. Einn vagninn verður til að mynda með sérstaka áherslu á gamalt efni frá Hafnarfirði, annar með meiri áherslu á efni sem tengist Kópavogi og sá þriðji með áherslu á efni sem tengist miðbæ Reykjavíkur. Vagnarnir verða á sveimi frá klukkan 18.00 til 23.00 þann 3. febrúar. Miðstöð Safnanæturstrætó verður á Kjarvalsstöðum.

Brekkusprettur
Á föstudeginum 3. febrúar  verður jafnframt reiðhjólakeppnin Brekkusprettur haldin kl. 19 á Skólavörðustígnum. Þar reynir fyrst og fremst á spretthörku þátttakenda.