Rúningur og lestarferð

Næstkomandi sunnudag 17. mars mætir Guðmundur Hallgrímsson í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn til að rýja sauðfé garðsins. Með honum í för verður frítt föruneyti kvenna frá Ullarselinu á Hvanneyri sem mun sýna handbrögðin við nýtingu á ullinni. Síðast kom Guðmundur í garðinn í upphafi desember þegar hann rúði féð rétt áður en hrútnum var hleypt til ánna.

Þegar rúið er á þessum tíma árs er snoðið tekið en það er reyfið kallað þegar það er ekki fullvaxið. Rúningur hefst klukkan 13 og lýkur um klukkan 16. Guðmundur og Ullarselskonur eru miklir viskubrunnar þegar kemur að rúningi og ullarvinnslu og því upplagt fyrir áhugasama að leggja leið sína í Laugardalinn á sunnudaginn.   

Ef veðurspá um hæglætisveður gengur eftir verður opið í hringekju og lest um komandi helgi frá klukkan 12 til 16.30 og opið er í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum alla daga frá klukkan 10 til 17.