Reykjavíkurborg tekur þátt í samkeppni um sjálfbæra uppbyggingu

Skipulagsmál Umhverfi

""

Reykjavíkurborg hefur uppfyllt skilyrði um þátttöku í alþjóðlegri samkeppni um sjálfbæra uppbyggingu á vegum borgarsamtakanna C40 sem eru samtök yfir 90 stærstu borga veraldar og Climate KIC sem eru evrópsk samtök um baráttu gegn loftslagsbreytingum. 
 

 

 

Þátttakan felst í því að borgin hefur boðið fram þrjár lóðir sem þverfagleg teymi arkitekta, verkfræðinga, fjárfesta og frumkvöðla munu keppa um til að skapa og þróa byggingar eða verkefni með bestu sjálfbæru lausnum sem völ er á. Verkefnin eiga hvorutveggja að skila fjárhagslegum og samfélagslegum ávinningi.

Bakhjarlar verkefnisins og stuðningsaðilar eru borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo, Michael R. Bloomberg, fyrrum borgarstjóri New York borgar auk Bloomberg Philanthropies, Children’s Investmen Fund Foundation (CIFF) og danski sjóðurinn Realdania sem styður við umhverfismál á vettvangi arkitektúrs og skipulags.

Fjöldi stórra borga og höfuðborga taka þátt í samkeppninni en þær eru Auckland á Nýja Sjálandi, Höfðaborg í Suður Afríku, Houston, San Fransisco og Chicago í Bandaríkjunum, Líma í Perú, Madríd á Spáni, Mílanó á Ítalíu, Mexíkóborg í Mexíkó, Osló í Noregi, París í Frakklandi, Quito í Ekvador, Reykjavík, Rio de Janeiro og Salvador í Brasilíu.

Hver þessara 15 borga, býður fram lóðir sem keppnisteymin móta framtíðarsýn fyrir. Borgin ásamt C40 og Climate KIC velur síðan þau verkefni sem best standast kröfur um nýsköpun á sviði sjálfbærni, framúrskarandi arkitektúrs og samfélagslegs ávinnings. Að lokum fá teymin sem eiga valdar tillögur tækifæri til að fjárfesta í lóðinni og framkvæma verkið.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist afar stoltur af því að Reykjavík hafi fengið að taka þátt í samkeppninni sem sé af allt annarri stærðargráðu en við þekkjum hér heima. „Þetta er stórt verkefni 15 leiðandi borga á heimsvísu sem leggja nú hver um sig fram 2-5 spennandi lóðir eða byggingarsvæði. Í kjölfarið setja arkitektar, hönnuðir, byggingaraðilar og aðrir hugmyndaflugsmenn fram alvöru tilboð í að fá að byggja eitthvað framúrskarandi, grænt og nýtt sem horfir til framtíðar. Þetta verða ný kennileiti hvert á sínu svæði, í sinni borg. Þetta getur verið mikið tækifæri fyrir okkur hér í Reykjavík. Borgin mun að sjálfsögðu hafa endanlegt ákvörðunarvald varðandi sína reiti en samtök stærstu framsæknu borga heims C40 munu standa að kynningu, styðja við val og útboðsferli og alla úrvinnslu. Borgarráð samþykkti að tefla fram framúrskarandi svæðum við Lágmúla 2, Frakkastíg 1 og loks frábæra lóð við Elliðaárvog sem er hluti af endurskipulagningu Höfðasvæðisins,“ segir Dagur B. Eggertsson.

Markmiðið samkeppninnar er að hvetja til nýsköpunar á sviði umhverfisvænna bygginga eða mannvirkja í borgum sem geta verið fyrirmyndir í lausnum á sviði umhverfisgæða, sjálfbærni og minna kolefnisfótspors sem fer vel saman við markmið C40, Climate KIC og þeirra borga sem taka þátt í samkeppninni.

Hvar eru lóðirnar í Reykjavík?

Lóðirnar sem Reykjavík býður fram eru:

Malarhöfði: Fyrrum iðnaðarlóð en verður eins konar  inngangur að nýju uppbyggingarsvæði á Ártúnshöfða. Þessi lóð býr yfir mörgum kostum en einn þeirra er nálægð við fyrirhugaða Borgarlínu og Elliðaárdal. Staðsetningin býður upp á einstakt samband byggðar og náttúru.

Lágmúli 2:  Það sem gerir lóðina einstaka er að hún er staðsett á lághitasvæði í miðri borg. Lóðin er einnig við fyrirhugaða leið Borgarlínu.  Á svæðinu mun verða blönduð byggð íbúða, verslunar, þjónustu og atvinnustarfsemi. .

Frakkastígur 1: Lóðin er að mörgu leyti  andlit borgarinnar frá sjávarsíðunni norðanmegin.  Á reitnum eru tækifæri til að flétta saman eldri byggð við nýja á framúrstefnulegan hátt.

Nánar má fræðast um C40 og borgirnar 

Fréttatilkynning á ensku / Press release