Reykjavíkurborg opnar fjármálin

Stjórnsýsla Fjármál

""

Reykjavíkurborg mun á morgun, fimmtudaginn 15. desember, opna svæði á vef borgarinnar þar sem hægt verður að fá nákvæmar upplýsingar um útgjöld og tekjur fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu.

Á vefsvæðinu sem nefnist Opin fjármál Reykjavíkurborgar verður hægt að skoða útgjöld niður á einstaka birgja sem fagsvið og skrifstofur Reykjavíkurborgar skipta við. Þar verður einnig að finna myndband með leiðbeiningum um hvernig nota á vefinn.

Heildarútgjöld borgarinnar eru birt samkvæmt níu mánaða uppgjöri 2016. Til samanburðar eru uppgjör borgarinnar frá 2014 og 2015 einnig birt. Þess er þó gætt að farið sé að lögum um persónuvernd.

Vefsvæðinu er skipt niður í þrjá hluta sem mynda A-hluta Reykjavíkurborgar en innan hans er eiginlegur rekstur borgarinnar. Þar er hægt að sjá útgjöld og tekjur Aðalsjóðs, Eignasjóðs og Bílastæðasjóðs.

Upplýsingarnar eru settar fram í viðskiptagreindarhugbúnaðinum Qlik Sense sem býður upp á rafrænar, gagnvirkar skýrslur og mælaborð sem veita góða heildaryfirsýn yfir upplýsingar á aðgengilegu formi. Þá býður vefurinn upp á mjög öfluga leitarvél. Qlik er leiðandi aðili á alþjóðavísu á sviði viðskiptagreindar.

Fyrsta skref í birtingu fjármálagagna

Um er að ræða fyrsta skref í birtingu fjármálagagna en Reykjavíkurborg hyggst birta enn ítarlegri fjármálaupplýsingar og gefa þau jafnframt út sem opin gögn á næstu misserum.

Hægt verður að senda inn ábendingar og athugasemdir á vefnum en á grundvelli þeirra verður vefurinn þróaður enn frekar.

Nýjar upplýsingar munu birtast á vefnum í tengslum við uppgjör Reykjavíkurborgar sem birt eru eftir hvern ársfjórðung.

Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar var falið þetta fyrsta verkefni í birtingu ítarlegra fjárhagsganga með samþykkt borgarráðs í sumarlok 2015 og hefur síðan þá verið unnið að innleiðingu hugbúnaðarins að afstöðnu útboði.

Birting gagnanna er í samræmi við uppfærða upplýsingastefnu borgarinnar og nútímakröfur um aðgengi almennings að upplýsingum um hvað skattpeningarnir fara í.

„Með birtingu þessara fjármálaupplýsinga fá íbúarnir kröftugt tæki í hendurnar til stóraukins aðhalds. Upplýsingarnar auka gagnsæi borgarkerfisins töluvert en þetta er samt bara fyrsta skref af vonandi mjög mörgum,“ segir Halldór Auðar Svansson, formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, en ráðið fól fjármálaskrifstofu að útfæra lausn sem styddi við rafræna gagnagátt um fjármál borgarinnar sem og útgáfu fjármálagagna á opnu sniði. 

Á að leiða til mikils rekstrarhagræðis

Reykjavíkurborg samdi við Capacent um kaup og innleiðingu á hugbúnaðarlausninni en hún var fyrst og fremst keypt til að samþætta upplýsingar og til að setja fram stjórnendaupplýsingar, en styður jafnframt við opinbera birtingu upplýsinganna. Nú er unnið að innleiðingu lausnarinnar hjá fagsviðum og skrifstofum borgarinnar og gerir borgaryfirvöld ráð fyrir að hún muni leiða til mikils rekstrarhagræðis þegar fram líða stundir. Að auki felur hún í sér bætta þjónustu við borgarbúa í formi aðgengis að upplýsingum og mun hún auka gagnsæi og bæta skráningu upplýsinga hjá borginni að öllu leyti, hvort sem varðar þjónustu eða fjármál.

Aðgengi stjórnenda að samþættum upplýsingum um rekstur, mannauðsmál og þjónustu verður stórbætt með hugbúnaðinum og nýtast upplýsingarnar vel til eftirlits og ákvarðanatöku.

Vitað er að í grunngögnunum sem birtast almenningi á morgun geta leynst skráningarvillur og annað sem mögulega kemur í ljós við birtingu gagnanna og þarf að leiðrétta. Borgaryfirvöld ætla ekki að láta það koma í veg fyrir birtingu gagnanna heldur verður unnið að leiðréttingum í kjölfar gagnlegra ábendinga sem hægt er að senda í gegnum ábendingagátt á síðunni.

Skoða reykjavik.is/opinfjarmal