Reykjavíkurborg hlýtur náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014

Mannlíf Umhverfi

""

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 2014 eru veitt sveitarfélagi, borg eða staðbundnu samfélagi sem sem annað hvort hefur í starfsemi sinni allri lagt mikið af mörkum til umhverfisverndar eða lagt sig fram á einhverju ákveðnu sviði umhverfismála. Verðlaunin að þessu sinni voru veitt Reykjavíkurborg.

Tilkynnt var um verðlaunahafann rétt í þessu, en nú stendur yfir þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Ísland átti þrjá fulltrúa meðal þeirra sem tilnefndir voru; Reykjavíkurborg, Snæfellsnes (samstarf fimm sveitarfélaga) og Sólheimar.

Ákvörðun um tilnefningar er tekin af norrænni dómnefnd sem er skipuð 13 einstaklingum, tveimur frá hverju norrænu ríkjanna og einum frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum.

Við verðlaunaafhendinguna í kvöld kom fram að Reykjavíkurborg fengi verðlaunin að þessu sinni fyrir markvissar aðgerðir sveitarfélagsins í umhverfismálum. Aðgerðirnar eru sérsniðnar fyrir borgina og eru öðrum sveitarfélögum fyrirmynd um hvernig hægt sé að vinna að bættara umhverfi.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

"Í gegnum árin, hefur Reykjavíkurborg þróað umhverfisvæna nýtingu neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita. Borgin hefur einnig haft þá stefnu að nota svæði sem ekki eru nýtt til annars, eða þar sem á að byggja síðar, í „grænum“ tilgangi fyrir borgarbúa og koma þannig í veg fyrir að þau verði gerð að bílastæðum. Þó að Reykjavík sé lítil borg þá ganga 87% ökutækja í eigu borgarinnar fyrir rafmagni eða gasi. Ekki er vitað um annað sveitarfélag sem hefur yfir eins stórum flota af umhverfisvænum ökutækjum að ráða".

Sveitarfélagið hefur um langt skeið átt í samstarfi um eftirlit og verndun vatnsbóla og er nú eina höfuðborg Norðurlanda sem nýtur þeirra forréttinda að geta veitt ómeðhöndluðu drykkjarvatni inn á heimili borgarbúa.

Vegna þessa víðtæka umhverfisstarfs sem sveitarfélagið innir af hendi með langtímasjónarmið að leiðarljósi, markvissri vinnu með umhverfisvæna nýtingu neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita er Reykjavíkurborg verðugur handhafi Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014.“

Málaflokkarnir eru margir sem vísað var til en starfið felst ævinlega í góðri vinnu og eftirliti t.d. á sviði vatns- og loftgæða, úrgangs- og endurvinnslu, opinna svæða, náttúrufræðslu m.a. í Grasagarði Reykjavíkur, líffræðilegri fjölbreytni, loftslagsmála, samgangna og þeirra fjölmörgu þátta sem fram koma í aðalskipulagi Reykjavíkur.

Þeir sem tilnefndir voru að þessu sinni eru hér í stafrófsröð.

Staðbundna samfélagið Gjógv (Færeyjar)
Sveitarfélagið Gladsaxe (Danmörk)
Sveitarfélagið Hallstahammar (Svíþjóð)
Sveitarfélagið Ii / Ijo (Finnland)
Borgin Jyväskylä (Finnland)
Sveitarfélagið Lejre (Danmörk)
Sveitarfélagið Middelfart (Danmörk)
Saligaatsoq-Avatangiiserik-verkefnið (Grænland)
Bærinn Skaftholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi (Ísland)
Snæfellsnes, samstarf fimm sveitarfélaga (Ísland)
Stofnunin Sólheimar (Ísland)
Sveitarfélagið Växjö (Svíþjóð)