Reykjavík.is besti sveitarfélagavefurinn

Stjórnsýsla

""

Reykjavíkurborg fékk í gær viðurkenningu fyrir besta vef sveitarfélags á degi upplýsingartækninnar. Stjórnarráðið fékk viðurkenningu fyrir besta vefinn í hópi ríkisstofnanna.

Viðurkenningin er byggð á mati sem gert var á opinberum vefjum (hvað er spunnið í opinbera vefi) en fimm efstu vefir í hvorum flokki komu til greina sem bestu vefirnir og sá dómnefnd um valið.

Rökstuðningur dómnefndar fyrir viðurkenningunni var eftirfarandi:

www.reykjavik.is

„Mjög auðvelt aðgengi er að upplýsingum, sérstaklega þegar miðað er við að mikið magn upplýsinga er á vefnum. Auðvelt er að finna fyrirfram ákveðið efni. Öflugur fréttaflutningur úr borginni er á vefnum. Forsíða er vel skipulögð og valmyndir skýrar. Notað er orðalag notenda í fyrirsögnum sem talar við notendur. Hönnun vefsins er skýr og litanotkun er góð. Gott er að styðja notendur með litum flokka. Samspil ljósmynda og táknmynda er vel útfært á vefnum. Í heildina litið er góð upplifun af notkun vefsins.“

Dómnefnd skipuðu; Marta Kristín Lárusdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, Tinni Sveinsson, þróunarstjóri hjá 365, og Margrét Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður almannatengsla hjá Samtökum iðnaðarins.

Vefur borgarinnar er þróaður af Rafrænni þjónustumiðstöð borgarinnar í náinni samvinnu við Upplýsingadeild og Upplýsingatæknideild. Grafísk hönnun vefsins er undir stjórn Jóns Frímannssonar vefhönnuðar hjá Stúdíó Slikk og forritun annaðist Egill Atlason. Nýtt og notendamiðað viðmót var birt í lok sumars eftir mjög skemmtilegt og lærdómsríkt notendasamrásferli sem unnið var með nemum úr HÍ. Við erum stolt af því hvernig til tókst og munum halda áfram á sömu braut í áframhaldandi þróun notendamiðaðs vefs og rafrænnar þjónustu.

Ítarefni:

Sjá nánar um niðurstöður úttektar á opinberum vefjum 2017

Erindi og upptöku frá ráðstefnunni má finna á vefnum sky.is