Reglur um stofnframlög samþykktar í borgarráði

Stjórnsýsla Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt reglur um stofnframlög til kaupa eða byggingar á íbúðum fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkunum samkvæmt 10. grein laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir. Stofnframlögunum er ætlað að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir í Reykjavík á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Þessi markmið falla vel að húsnæðisstefnu og húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Til að ná þessum markmiðum skal lögð sérstök áhersla á nýbyggingar og að fjölga leiguíbúðum.

Stofnframlög fá  húsnæðissjálfseignarstofnanir, lögaðilar sem eru alfarið í eigu Reykjavíkurborgar (Félagsbústaðir hf.) og þeir lögaðilar sem starfandi voru fyrir gildistöku laga um almennar íbúðir og uppfylla skilyrði laga til að fá lán frá Íbúðalánasjóði skv. þágildandi 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.

Um stofnframlögin gilda ákvæði laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir, reglugerð nr. 555/2016 og nýsamþykktar reglur Reykjavíkurborgar um stofnframlög. Stofnframlög frá ríki og hlutaðeigandi sveitarfélagi geta numið 30% af stofnkostnaði. Sá sem sækir um stofnframlag verður að sækja bæði um til Íbúðalánasjóðs vegna framlags ríkisins og til hlutaðeigandi sveitarfélags. Umsókn þarf að hljóta samþykki hjá báðum aðilum, Íbúðalánasjóði og  hlutaðeigandi sveitarfélagi.

Umsóknarfrestur um stofnframlög rennur út 15. október nk. Brýnt er að væntanlegir umsækjendur kynni sér reglur Íbúðalánasjóðs og Reykjavíkurborgar vel og gæti þess að senda inn umsókn og öll tilskilin gögn tímanlega.

Reglur Reykjavíkurborgar um stofnframlög