Rammi settur utan um félagsmiðstöðvastarfið

Skóli og frístund

""

Fyrstu heildstæðu reglurnar um fyrirkomulag félagsmiðstöðva fyrir börn og ungmenni í 5.-10. bekk hafa verið samþykktar í skóla- og frístundaráði. 

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum 11. október fyrstu heildstæðu reglurnar um fyrirkomulag félagsmiðstöðva fyrir börn og ungmenni í 5.-10. bekk. Reglurnar eru settar í framhaldi af víðtækri stefnumótun um frístundaþjónustu sem samþykkt var í borgarstjórn í byrjun mánaðarins. 

Í reglunum er m.a. fjallað um innritun, opnunartíma, dvalargjöld, forgang, sumarstarf og húsnæði félagsmiðstöðva. Þá eru sérstök ákvæði um starfsemi sértækra félagsmiðstöðva fyrir börn með sérþarfir. Með reglunum fá félagsmiðstöðvarnar skýrari ramma utan um starfið og settar eru fram gæðakröfur um starfsemina. Sjá reglur um þjónustu félagsmiðstöðva. 

Einnig samþykkti ráðið endurskoðaðar reglur um þjónustu frístundaheimila. Helsta breytingin er sú að sett er inn í reglurnar ákvæði um að verði tafir á þjónustu, t.d.vegna manneklu, sé fyrst litið til forgangshópa en síðan verði umsóknir afgreiddar í tímaröð, elsta umsókn fyrst, en þó þannig að börnum í 1. bekk er fyrst boðin dvöl, þá börnum í 2. bekk, þá börnum í 3. bekk og að lokum börnum í 4. bekk. Þessi regla mun koma til framkvæmda við næstu innritun barna í frístundaheimili á komandi ári. Áður gilti sú regla að tímasetning umsóknar réði skráningu barna í frístundaheimili.
Sjá reglur um þjónustu frístundaheimila.