Rafmagnslaus dagur í leikskólanum Mýri

Skóli og frístund

""

Í svartasta skammdeginu var haldinn rafmagnslaus dagur í leikskólanum Mýri til að varpa ljósi á nútíma þægindi sem flestir líta á sem sjálfsagðan hlut.  

Þann 9. janúar héldu börn og starfsfólk í leikskólanum Mýri rafmagnslausan dag. Hugmyndin var fengin frá leikskólanum Gefnarborg í Garði og markmiðið var að kynnast því í raun hve rafmagnið skiptir okkur öll miklu máli..

Leikskólinn Mýri er Grænfánaskóli og rafmagnslausi dagurinn var liður í því umhverfisstarfi. Fyrir valinu varð að nýta svartasta skammdegið í þetta skemmtilega verkefni. Rafmagn var tekið af öllu húsinu og því ekki hægt að kveikja ljós, vinna í tölvu, elda mat né hella upp á kaffi. Börnin gengu um með vasaljós til að sjá handa sinna skil og starfsfólkið með höfuðljós.

Eldri börnin í leikskólanum tóku þátt í undirbúningi dagsins þar sem ákveða þurfti hvað væri hægt að borða án þess að nota rafmagn. Það komu margar góðar uppástungur en ýmsar þurfti að slá út af borðinu þar sem börnin komust að því að brauðrist, ofn og eldavélar ganga flestar fyrir rafmagni. Þá virkuðu uppþvottavélar og hljómflutningstæki ekki heldur. Að lokum var ákveðið að handhræra skyr.

Dagurinn tókst einstaklega vel og var haldið í rafmagnsleysið á öllum deildum og eldhúsi. Starfsfólk og þá sérstaklega leikskólastjóri fengu kærkomna hvíld frá álagi tölvunnar og tölvupósts og gátu nýtt tímann með börnunum. Verður þetta nú árlegur viðburður á leikskólanum Mýri.