Opnun bataskóla

Velferð

""

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, handsala samkomulag Reykjavíkurborgar og Geðhjálpar um þróun Bataskóla Íslands við formlega opnun skólans í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur þriðjudaginn 18. apríl kl. 12.00.

Meðal annarra þátttakenda í verkefninu eru Landspítalinn, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Meginmarkmið bataskólans er að með menntun megi auka innsæi, bæta lífsgæði og auka þátttöku fólks með geðrænan vanda í samfélaginu. Rauði þráðurinn í starfseminni er þétt samstarf sérfræðinga og fólks með reynslu af geðrænum veikindum. Nýráðnir verkefnisstjórar bataskólans eru Esther Ágústsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson. Þau kynna starfsemi skólans við opnunarathöfnina. Fjölmiðlar eru boðnir velkomnir á viðburðinn.

Bataskóli að breskri fyrirmynd

Bataskóli Íslands verður byggður upp að fyrirmynd bataskóla (Recovery College) í Bretlandi. Bretar eru frumkvöðlar á sviði bataskóla og hafa stofnað 33 bataskóla þar í landi á síðustu fimm árum. Samhliða hafa þeir breitt út hugmyndafræði bataskóla til hátt í 40 annarra Evrópulanda og Japan á allra síðustu árum. Geðhjálp átti frumkvæðið að því að íslenskur hópur á vegum samráðshóps úrræða/félaga á geðheilbrigðissviðinu kynnti sér hugmyndafræði bataskóla í London og Nottingham. Í framhaldi af því leituðu samtökin eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um þróunar skólans. Borgarráð hefur samþykkt að leggja árlega 15 milljónir króna og frítt húsnæði til þróunar bataskóla á Íslandi á næstu þremur árum. Skólinn verður staðsettur í húsnæði Námsflokkanna við Suðurlandsbraut 32 fyrstu árin. Stefnt er að því að fyrstu nemendurnir hefji skólagöngu sína í Bataskóla Íslands í haust.

Námsframboð bataskólans ræðst af áhuga nemenda hverju sinni. Dæmi um námskeið í breskum bataskólum eru Lifað með geðhvörfum, Kvíðastjórnun, Uppbyggileg samskipti og Mindfulness. Tveir einstaklingar, sérfræðingur og svokallaður jafningjafræðari, stýra námsefnisgerð í hverju námskeiði fyrir sig með virkri þátttöku breiðs hóps hefðbundinna sérfræðinga og notenda geðheilbrigðiskerfisins. Með sama hætti kenna alltaf tveir kennarar, hefðbundinn sérfræðingur og jafningjafræðari, hvert námskeið. Bataskólar hafa skilað frábærum árangri í Bretlandi, t.a.m. halda um 70% nemenda við bataskólann í Nottingham áfram námi, taka að sér sjálfboðaliðastörf eða launuð störf að námi loknu.

Esther og Þorsteinn

Nýráðnir verkefnastjórar bataskólans, Esther Ágústsdóttir og Þorsteinn Guðmundsson, eru hvort um sig ráðin til skólans í hálfu starfshlutfalli.

Esther er grunn- og framhaldsskólakennari að mennt og leggur stund á meistaranám í fullorðinsfræðslu með starfi sínu við bataskólann. Hún hefur sinnt skólastjórn og kennslu á ýmsum skólastigum á Íslandi og í Danmörku á umliðnum árum. Esther er jafnframt menntaður markþjálfi og hefur starfað sem slíkur. Síðustu ár hefur Esther látið sig geðheilbrigðismál miklu varða og hefur hún tekist á við geðrænar áskoranir í eigin lífi.

Þorsteinn er leikari, grínisti og uppistandari og leggur stund á sálfræði við Háskóla Íslands með starfi verkefnisstjóra. Þorsteinn hefur komið fram, skrifað pistla og greinar fyrir ýmsa fjölmiðla, útvarpsleikrit og bækur auk kvikmyndarinnar Okkar eigin Ósló á síðustu árum. Hann er líklega þekktastur fyrir sjónvarpsþættina Fóstbræður sem hann lék í og skrifaði ásamt fleirum. Þorsteinn hefur látið sig samfélagsmál varða með ýmsum hætti á undangengnum árum.

Dagskrá;

hefst klukkan 12 þriðjudaginn 18. apríl 

11.45 - Helgi Valur Ásgeirsson, trúbador, leikur nokkur lög á meðan gestir tínast inn í salinn.

12.00 - Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, heldur stutta tölu um gildi  bataskólans og samstarfsins við Geðhjálp.

12.10 - Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, segir nokkur orð.

12.20 - Borgarstjóri og Hrannar handsala samstarfið.

12.20 - Leikhópurinn Húmor frá Hlutverkasetri flytur stutt,  frumsamið atriði.

12.30 - Borgarstjóri kynnir til sögunnar tvo verkefnisstjóra Bataskólans, Þorstein Guðmundsson og Esther Ágústsdóttir.

Þorsteinn útskýrir að þau Esther muni svara spurningum gesta um bataskólann – maður á mann.

12.30/45 - Boðið upp á veitingar og drykki – spurningar og svör fyrir fjölmiðla og gesti.

13.00 - Lok