Nýstárlegt dönskunám í Kelduskóla

Skóli og frístund

""

Undanfarnar vikur hafa nemendur í 7. bekk í Kelduskóla verið að vinna skemmtilegt dönskuverkefni í snjalltölvum. Þeir útbúa rafbækur og nota tal, tónlist og skemmtilegt myndefni í náminu.   

Með því að nota forritið BookCreator í dönskunámi gefst nemendum tækifæri til að vinna með marga þætti tungumálsins á skemmtilegan og skapandi hátt  og þar vinnur sérhver nemandi á eigin forsendum.

Nemendur skrifa inn texta í sína bók og nýta sér orðaforða og setningar sem þeir hafa lært í vetur. Þeir hlusta á talaða dönsku og læra að tjá sig munnlega með því að lesa upp texta og syngja. Þannig ná þeir að efla dönskufærni sína með því að fást við tungumálið á fjölbreyttan hátt. Krakkarnir hafa sýnt þessu verkefni mikinn áhuga og lagt metnað í að útbúa skemmtilegar bækur sem endurspegla lifandi áhuga þeirra á viðfangsefninu. 

Í liðinni viku kom fulltrúi frá danska sendiráðinu í heimsókn í Kelduskóla og veitti tvær viðurkenningar fyrir best unnu rafbækurnar og þá var sungið fyrir gestina á dönsku.
Nemendur tóku einnig þátt í Instagram keppni þar sem þeir söfnuðu myndum og dönskum orðum í myndaorðabók. Tveir nemendur fengu viðurkenningu fyrir góða þátttöku í keppninni.