Nýr hverfishluti reistur við Leirtjörn

Skipulagsmál

""

Borgarráð hefur samþykkt til auglýsingar nýtt deiliskipulag fyrir Úlfarsárdal en fyrst var hugað að deiliskipulagi á þessum stað um aldamótin síðustu. Gert er ráð fyrir um og yfir 1300 íbúðum í dalnum. Nýtt hverfi verður reist við Leirtjörn. Auglýsingatíminn er sex vikur og er hann áætlaður frá byrjun maí til júníloka.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 (AR 2030) kemur fram að borgin ætli að styrkja hlutverk sitt sem græn borg.  Sá vilji felur í sér  aukna áherslu á þéttingu byggðar og blöndun byggðarmynsturs. Einnig fylgir því gott aðgengi að fjölbreyttum útivistar- og náttúrusvæðum ásamt því að efla vistvæna ferðamáta. Stefnunni um grænu borgina í aðalskipulagi Reykjavíkur er ætlað að vera aflvaki góðs borgarlífs, stuðla að bættri lýðheilsu borgarbúa og auka græna ásýnd borgarinnar með trjám og öðrum gróðri. Þetta eru þau viðmið sem liggja til grundvallar í nýju deiliskipulagi fyrir Úlfarsárdal.

Útivistarstígur við Leirtjörn

Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir að ný byggð rísi norðan Skyggnisbrautar á svæðinu niður að Leirtjörn. Land verður mótað þannig að Leirtjörn fær fasta bakka og rennsli frá henni verður stýrt í farveg um gilið austan byggðarinnar niður í Úlfarsá. Leirtjörn er árstíðabundin tjörn og er lagt til að skoðað verði hvernig tryggja megi stöðugleika á vatnsborði í tjörn af takmarkaðri stærð sem mótuð verði á svæðinu.

Úti við Leirtjörn er gert ráð fyrir útivistarstíg, a.m.k. þriggja metra breiðum sem tengist stígakerfi Úlfarsfells. Tengistígar skulu vera frá íbúðahverfi að útivistarstíg út frá gangstéttum sem tryggja gott aðgengi að útivistarsvæði Úlfarsfells. Gróður á útivistarsvæði við Leirtjörn mun taka mið af aðstæðum. Við bakka tjarnarinnar verður leitast við að endurheimta náttúrlegt gróðurlendi með áherslu á gróðursetningu íslenskra tegunda, til dæmis víðikjarr og engjagras.  

Í Úlfarsárdal er gert er ráð fyrir að gatnakerfi verði óbreytt á því svæði sem núgildandi deiliskipulag nær yfir að öðru leyti en því að Skyggnisbraut verður breytt. Göturými verður bætt með tilliti til allra ferðamáta og Skyggnisbraut gerð að fallegri borgargötu með hjólastígum beggja vegna en það breytir ásýnd hennar mikið. Urðartorg verður gróðurmikið svæði og gefur færi á uppákomum og lifandi mannlífi. Hugað verður vel að lýsingu, bekkjum og öðrum götugögnum.

Í aðalskipulaginu varð nýlega sú stefnubreyting fyrir Halla, Hamrahlíðarlönd og Suðurhlíðar Úlfarsárdals að eingöngu er gert ráð fyrir uppbyggingu eins skólahverfis þar á skipulagstímabilinu.

Borg fyrir fólk er leiðarljós aðalskipulagsins

Markmiðið í aðalskipulaginu er að hverfi borgarinnar verði sjálfbærari en áður, mannvænni og fjölbreyttari m.a. með því að að tryggja hágæða hönnun og vistvænar lausnir í nýjum hverfum og auka gæði í núverandi hverfum með því meðal annars að styrkja innviði þeirra. Dagleg verslun og þjónusta eiga að vera í sem mestri nálægð við íbúana svo fólk þurfi ekki bifreið til að sækja þjónustu innan hverfis. Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á völdu svæði í deiliskipulaginum um Úlfarsárdal.

Allt land sem fer undir Úlfarsárdalshverfi  er í eigu Reykjavíkurborgar. Landsvæðið, sem deiliskipulag Úlfarsdalshverfis tekur til, nær frá Leirtjörn í norðri suður að Úlfarsá og frá Mímisbrunni í vestri að gilinu austan við núverandi byggð. Mörk deiliskipulags eru skilgreind á uppdrætti. Heildarstærð hverfis  er um 4 ha, brúttó. Landið er í um 90 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem það rís hæst.

1.300 íbúðir í heild

Í Úlfarsárdal er gert ráð fyrir íbúðabyggð með um það bil 1.300 íbúðum í heild. Af þeim eru um 895 í fjölbýlishúsum og 435 íbúðir eru í mismunandi gerðum af sérbýlishúsum. Þar af eru 70 íbúðir í einbýlishúsum og ríflega 300 íbúðir í mismunandi gerðum af  sambyggðum sérbýlishúsum.

Auk íbúða er gert ráð fyrir möguleikum á atvinnuhúsnæði fyrir skrifstofur og þjónustu í tilteknum fjölbýlishúsum við Skyggnisbraut, einkum á jarðhæðum. Gert er ráð fyrir hverfisverslun og annarri þjónustu við Skyggnisbraut næst Urðartorgi.

Auglýsingatíminn er 6 vikur og hefst hann 16. maí stendur til júníloka. Reykjavíkurborg mun standa fyrir opnu húsi í hverfinu og kynna tillögurnar enn frekar.

Tengill

Greinargerð - tillaga

Úlfarsárdalur deiliskipulagsuppdráttur

Úlfarsárdalur skýringaruppdráttur 1

Úlfarsárdalur skýringaruppdráttur 2

Úlfarsárdalur skýringaruppdráttur 3