Nýjar áskoranir fyrir skólasamfélagið

Skóli og frístund

""

Reykjavík er meðal þriggja sveitarfélaga sem veita hælisleitendum, þar með talið börnum, þjónustu á meðan mál þeirra eru til úrvinnslu. 

Alls hafa 25 hælisleitandi börn á leik- og grunnskólaaldri fengið skólavist það sem af er árinu en fyrstu fjölskyldurnar komu til Reykjavíkur haustið 2015. Hluti þeirra hefur fengið stöðu flóttafólks, aðrir hafa verið sendir aftur til síns heimalands, en mál flestra barnanna eru enn í vinnslu hjá Útlendingastofnun. 

Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða hefur í samstarfi við skólayfirvöld skipulagt þjónustu við börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd. Þau búa víða um borgina en sækja líkt og íslensk börn þann skóla sem næstur er heimili þeirra hverju sinni. 

Um þessar mundir er unnið að nýjum samningum á milli Útlendingastofnunar og Reykjavíkur og er hlutverk skóla- og frístundasviðs á grundvelli þeirra m.a. að veita þeim börnum, sem sótt hafa um alþjóðlega vernd, viðeigandi skóla- eða frístundaþjónustu og tryggja til þess nauðsynlegt fjármagn.

Á vegum skóla- og frístundasviðs starfar fjölmenningarteymi sem sinnir ráðgjöf vegna þessara barna. Í því sitja Dagbjört Ásbjörnsdóttir, Dröfn Rafnsdóttir og Fríða B. Jónsdóttir. Teymið hefur staðið fyrir fræðslu um móttöku og aðlögun hælisleitandi barna í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi en það verkefni felur í sér mikla áskorun fyrir allt skólasamfélagið. Þegar liggja fyrir tillögur að móttökuáætlunum fyrir þessi börn en jafnframt er mikilvægt að veita öllum sem að velferð þeirra koma víðtæka fræðslu, s.s. öðrum nemendum, starfsfólki og foreldrum.

Búast má við að fjöldi hælisleitenda á Íslandi verði í kringum 700 á árinu 2016 og fjölgi á næstu misserum. Því er brýnt að takast á við þann veruleika með öllum þeim sem móta skólasamfélagið.