Nagladekk valda hávaða í borginni

Umhverfi

""

Nagladekk eru leyfileg í Reykjavík á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl ár hvert en þau eru ekki ekki æskileg. Nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna í Reykjavík og eldsneytiskostnað bifreiða auk þess sem þau valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum. Neikvæð áhrif svifryks í andrúmslofti á heilsu manna hafa komið sífellt betur í ljós á síðustu árum. Ný rannsókn sýnir að hlutfall malbiks í svifryki hefur snarlækkað.

Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár bent á að notkun nagladekkja innan borgarmarka er óþörf. Drög að reglugerð um mynstur hjólbarða, ný könnun á samsetningu svifryks og enn betri aðstæður fyrir vistvæna samgöngumáta styðja þá ábendingu.

Dýpt mynsturs í hjólbörðum hefur áhrif á hversu gott grip þeirra er. Í nýrri reglugerð um gerð og búnað ökutækja er nú krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða. Ökumönnum er nú gert að nota slík dekk á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl.

Nýleg  rannsókn Vegagerðarinnar á samsetningu svifryks sýnir að hlutfall malbiks í svifryki hefur snarlækkað frá árinu 2003 eða úr 55% í 17%. Á sama tíma lækkaði hlutfall bifreiða á nagladekkjum í Reykjavík úr 67% í 32%. Gera má ráð fyrir að sterkt samband sé þarna á milli.

Þá hefur þeim skiptum sem svifryk (PM10) fer yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík fækkað á undanförnum árum. Svifryk hefur á þessu ári farið átta sinnum yfir sólarhringsheilsuverndarmörk, sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra (50 µg/m3) við Grensásveg.

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030 er það markmið sett að hlutdeild almenningssamganga og gangandi og hjólandi vaxi verulega á næstu árum og mun það einnig bæta loftgæði í borginni.

Upplýsingar um nagladekk.