Merkingar gangbrauta taka mið af umferðaröryggi

Samgöngur

""

„Reykjavíkurborg vinnur eftir samræmdum reglum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar við ákvarðanir um hvar og hvernig merkja á gangbrautir. Þær leiðbeiningar og reglur byggja á erlendum rannsóknum og eru í samræmi við það sem tíðkast hjá þeim þjóðum sem best standa í umferðaröryggismálum,“ segir Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar og bregst þar við gagnrýni sem kemur fram á vef FÍB og í frétt á RÚV þar sem því er ranglega haldið fram að ekki sé nein heildstæð stefna hjá Reykjavíkurborg í þessum efnum.

Þorsteinn segir að það sé einnig rangt sem haldið er fram í fréttinni að ekki hafi verið nokkurs konar könnun á því hvaða leiðir börn fari í og úr skóla með það að markmiði að tryggja öryggi þeirra í umferðinni með gangbrautum.  „Gönguleiðir skólabarna, frá heimili í skóla, í flestum skólum borgarinnar voru kortlagðar með ítarlegum hætti fyrir nokkrum árum. Börnin teiknuðu sjálf inn á kort þær leiðir sem þau ganga og hvar þau þvera götur og niðurstöðurnar voru settar inn í gagnagrunn,“ segir Þorsteinn.  Hann segir að fjármagni í úrbætur á gönguþverunum og umferðaröryggi sé forgangsraðað með hliðsjón af þessari kortlagningu, slysagögnum, hraðamælingum og fleiri þáttum. Að sögn Þorsteins er stefnt að því að endurtaka slíka kortlagningu á næstu misserum í öllum skólum borgarinnar.

Fjárfestingaráætlun borgarinnar gerir ráð fyrir 70 milljónum króna á ári í sérstakar úrbætur á gönguleiðum skólabarna á þessu ári og að auki er hugað að umferðaröryggi gangandi vegfarenda í öllum öðrum gatnaframkvæmdum og gerðar breytingar þar sem ástæða er til.

Tengt efni: