Menningarfáni til að efla menningaruppeldi

Menningarfáninn er nýmæli sem miðar að því að efla menningaruppeldi í skóla- og frístundastarfi. Ný heimasíða um Menningarfána Reykjavíkurborgar  var opnuð við hátíðlega athöfn í Dalskóla 1. febrúar. Nemendur skólans tóku þátt í athöfninni með leik og söng.

Einar Örn Benediktsson formaður menningar- og ferðamaálaráðs, og Oddný Sturludóttir formaður skóla- og frístundaráðs opnuðu heimasíðuna með aðstoð barnanna.

Menningarfáni Reykjavíkurborgarar er þróunarverkefni sem miðar að því að efla menningarstarf í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum. Fáninn verður viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarstarf og verður veittur í fyrsta sinn á Barnamenningarhátið í vor.

Eitt af markmiðunum með að styðja við og hlúa að listkennslu og skapandi starfi er að auka samfellu og samstarf í skóla- og frístundastarfi. Náin samvinna opnar möguleika á samþættum kennsluaðferðum sem geta leitt til nýstárlegra verkefna í hefðbundnum sem óhefðbundnum greinum. Þegar stefnt er að menningarfána er unnið með hin ýmsu birtingarform lista og menningar með áherslu á strauma og stefnur í barna- og unglingamenningu.

Menningarfáninn er til marks um aukið vægi á listkennslu og skapandi starf í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum og snýr ekki bara að börnum og ungmennum heldur því samfélagi sem þau munu móta þegar þau fullorðnast.

Verkefnastjóri með menningarfánanum er Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir.