Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar samþykkt einróma í borgarstjórn

Velferð Mannlíf

""

Borgarstjórn samþykkti einróma breytingar á mannréttindastefnu borgarinnar á fundi þann 18. október síðastliðinn. Þó mannréttindi séu í eðli sínu algild þá er mikilvægt að endurskoða og rýna reglulega stefnumótun sem varðar fólk og réttindi þess.

Þverpólitískum starfshópi var falið að gera það og leiddi Líf Magneudóttir starfið.   
Mannréttindastefnan er byggð á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.

Fjórum köflum hefur verið bætt við stefnuna:

5. Heilsufar og líkamlegt atgervi
6. Holdafar og líkamsgerð
10. Umhverfi
11. Öryggi 
12. Reykjavíkurborg sem verkkaupi

Líf Magneudóttir, formaður starfshópsins sem vann að endurskoðun mannréttindastefnunnar, segir  að með þessum breytingum sé lagður grunnur að því að fólki sé ekki mismunað og að allir hópar hljóti viðurkenningu og séu sýnilegir ."Við höfum lagt okkur fram við að gera hópa sem oft fá of litla umfjöllun eða hreinlega gleymast sýnilega. Á þetta t.d. við um fatlað fólk, börn, fólk af erlendum uppruna og hinsegin fólk. Það skiptir sköpum að jaðarsettir hópar og hópar með lágværa rödd njóti sömu réttinda og aðrir hópar og séu metnir að verðleikum í borgarsamfélaginu. Við eigum öll tilverurétt í Reykjavík. Reykjavíkurborg þarf að endurspegla fjölbreytni borgarbúa í öllu sínu starfi og vinna heildstætt eftir samræmdri mannréttindastefnu t.d. eins og í mannaráðningum og þjónustuveitingu. Öll þjónusta verður að vera markviss og laus við fordóma eða mismunun til að gagnkvæmur skilningur skapist á ólíkum aðstæðum fólks eða lífssýn."