Manngæska og fagþekking

Velferð

""
Manngæska og fagþekking einkennir einstaklingana, verkefnið og starfstaðinn sem hlutu hvatningarverðlaun velferðarráðs 2015. Verðlaunin voru veitt í  fimmta sinn við hátíðlega athöfn í safni Ásmundar Sveinssonar.
Hákon Sigursteinsson sálfræðingur fékk viðurkenningu í flokki einstaklinga, búsetukjarninn Lindargötu 64 í flokki starfsstaða og Austurstrætisverkefnið í flokki verkefna. Að lokum voru veittar tvær viðurkenningar fyrir farsælt starf.
 
Markmiðið með veitingu þessara verðlauna er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarmálum . Alúð, þróun og nýbreytni eru lykilorð verðlaunanna. Ráðinu  bárust tillögur um tólf einstaklinga, sjö hópa eða starfsstaði og loks sex verkefni. 

Viðukenningu í flokki einstakling hlaut Hákon Sigursteinsson, sálfræðingur.  Hann hefur verið deildarstjóri sérfræðiþjónustu í Breiðholti frá stofnun þjónustumiðstöðvarinnar.  Hann hefur verið leiðandi í mótun og framþróun sérfræðiþjónustu skóla í borginni  og framsýni hans og frumkvöðlastarf hefur haft áhrif á stefnumótun í málaflokknum.  Aðrar hafa tekið upp verklag  Hákons, sem flýtir aðstoð við börnin.  Hákon  gefur forvarnarvinnu meira vægi í sérfræðiþjónustu skóla, t.d. í formi námskeiða fyrir foreldra og börn í hverfinu, með viðveru sálfræðinga í skólum, skimun á tilfinningarlegri líðan barna og verkefni í læsi.

 
Það var mat valnefndar að búsetukjarninn Lindargötu 64  ætti skilið viðurkenningu fyrir vel heppnað þróunarverkefni. Kristján Sigurmundsson forstöðumaður, ásamt sínu fólki, þróðaði aðferð sem  fólst í því að breyta búsetukjarna og auka með því val og sjálfstæði geðfatlaðra.  Þetta er ný leið sem er farin að frumkvæði og undir forystu Kristjáns.
 

Austurstrætisverkefnið var sett af stað vegna aðstæðna sem myndast höfðu í miðbænum.  Hópur ungmenna var farinn að sýna mikla áhættuhegðun og höfðu þau öll fengið  þjónustu hjá þjónustumiðstöðvum og Barnavernd,  auk þess sem lögreglan og starfsmenn Hins hússins voru farin að hafa mikil afskipti af þeim. Til að bregðast við þessum aðstæðum var myndað teymi með starfsmönnum frá íþrótta- og tómstundasviði, skóla- og frístundasviði, velferðarsviði, Barnavernd og umhverfis- og skipulagssviði (Vinnuskólinn). Til að byrja með hittu starfsmenn ungmennin tvisvar í viku og unnu með þeim en yfir sumarið fóru þau í Vinnuskólann. Breytingar urðu á hugsunarhætti ungmennanna og foreldrar sáu breytingar á hegðun þeirra.


Guðrún Marínósdóttir hjá Barnavernd og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir velferðarsviði voru hluti af teyminu sem hélt utan um verkefnið og komu að undirbúningi þess. Þær fengu með sér Andra Bjarnason sálfræðing á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Reynir Harðarson sálfræðing hjá Barnavernd til að sjá um handleiðslu fyrir starfsmenn verkefnisins á meðan á starfinu stóð

Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri, og Auður Sigurðardóttir, félagsráðgjafi viðurkenningu  fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála. Guðmundur hefur starfað af miklum metnaði í  velferðarþjónustu um áratugaskeið . Hann heldur utan um tölfræði og lykiltölur sviðsins. Hann er vakandi fyrir þróun í velferðarþjónustu og bóngóður. Auður hefur gegnt starfi félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg á þriðja áratug. Auður hefur helgað sig vinnu með fjölskyldum og verið fyrirmynd annarra félagsráðgjafa. Störf hennar hafa einkennst af jákvæðri sýn á fólk og samkennd. 

Valnefnd hvatningarverðlaunanna 2015 var skipuð fulltrúum velferðarráðs, skrifstofu velferðarsviðs, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og BHM. Í valnefnd voru: Ilmur Kristjánsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Garðar Hilmarsson, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Lóa Birna Birgisdóttir.