Borgarráð hefur samþykkt tillögu umhverfis- og skipulagssviðs um bætta lýsingu á Klambratúni. Samhliða því verður sett upp þráðlaust net og túnið verður "heitur reitur".
Erindi um að bæta lýsinguna barst upphaflega frá Hverfisráði Hlíða þar sem bent var á að „ákveðnir skikar Klambratúns geti skapað hættu sökum slæmrar lýsingar.“
Öllum lömpum á núverandi staurum verður skipt út, en þeir eru 20 talsins auk þess sem 24 nýjum ljósastaurum verður bætt við. Bil á milli ljósastaura verði 25m í stað 50m.
Núverandi lampar eru allir með 125W kvikasilfursperum, sem búið er að banna en þar að auki eru lamparnir orðnir gamlir og viðhaldsfrekir.
Nýju lamparnir sem settir verða upp verða með 31W LED ljósgjafa og hlýhvítri birtu (3000 °K).
Núverandi „karakter“ lýsingar mun samt halda sér þannig að bæði göngustígur og nánasta umhverfi hans verður lýst upp.
Valdir voru snjallvænir (forritanlegir) lampar sem hafa þessa lýsingareiginleika auk þess sem útlit þeirra vísar að mörgu leyti í byggingarstíl Kjarvalsstaða.
Samhliða framkvæmdinni mun Gagnaveitan leggja ljósleiðara og Snjallvæðing borgarinnar setja upp þráðlaust net (Wifi) á túninu.
Einnig verður sett upp ný jóla- og skammdegislýsing í gróðurþyrpingu á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar í líkingu við þær endurbætur sem áttu sér stað í desember 2016 á horni Flókagötu og Rauðarárstígs.
Þessi þétting lýsingar mun ekki hafa áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir við Miklubraut eða aðrar framkvæmdir á túninu.
Áætlað er að verkið hefjist í febrúar og ljúki í lok mars 2017. Kostnaður er áætlaður 22,8 milljónir en þar af er hlutur Gagnaveitunnar 3,4 mkr.