Lesið í þúsundir klukkustunda fyrstu helgina í landsleik í lestri

Skóli og frístund Mannlíf

""

Á föstudaginn var fór Allir lesa - landsleikur í lestri í gang og er hann sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum, svo vitað sé. Óhætt er að segja að keppnin hefjist með látum, en nú þegar er búið að skrá lestur í hátt í 6.000 klukkustundir inn á vefinn, og deilist það niður á 1.737 einstaklinga í 152 liðum – og sífellt bætist við, enda á sjötta hundrað lið þegar skráð til leiks.

Áhugavert er að skoða skiptingu á milli sveitarfélaga, sem er meðal þeirra talna sem eru aðgengilegar á vefnum allirlesa.is. Þegar þetta er ritað er Reykjanesið að standa sig með prýði, en efstu tvö sveitarfélögin eru Garður og Vogar. Þar á eftir fylgja Vestmannaeyjar, Djúpavogshreppur og Hornafjörður.

Það er ástæða til að hvetja fólk til að fylgjast með hinni skemmtilegu tölfræði sem er birt á allirlesa.is, hvort sem það er samanburður á milli sveitarfélaga eða kynja, listi yfir efstu liðin (sem mörg heita stórskemmtilegum nöfnum), vinsælustu bækurnar, aldursdreifing á lestri eða annað sem þar er að finna.

Það er ljóst að fólk tekur keppninni vel og lesturinn fer vel af stað, en keppnin stendur í heilan mánuð og lýkur á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember nk. Það er því vert að minna á að enn getur fólk skráð sig til leiks og gengið í lið í keppninni, þótt keppnistímabilið sé formlega farið í gang. Auk þess er hægt að skrá lestur helgarinnar afturvirkt, fyrir þá sem eiga eftir að skrá sig.

Lestrardagbókin verður áfram opin á allirlesa.is eftir að keppninni lýkur 16. nóvember og þar getur fólk haldið utan um eigin lestur. Þar er líka hægt að taka þátt í lestrarsamfélagi á netinu allan ársins hring með Allir lesa.

Um leikinn

Allir lesa er landsleikur í lestri sem fer fram 17. október til 16. nóvember ár hvert og lýkur honum því á degi íslenskrar tungu. Þátttakendur skrá lestur sinn í lestrardagbókina á vefnum allirlesa.is og taka þátt í leiknum með því að vera í ákveðnu liði. Þau lið sem verja mestum tíma í lestur standa uppi sem sigurvegarar. Hvert lið velur liðsstjóra sem heldur utan um liðið og lestur þess. Liðsstjóri getur skráð allan lestur liðsins eða hver liðsmaður fyrir sig skráir sinn lestur.

Það skiptir ekki máli hvernig bækur þú lest eða hvort þú lest prentaðan texta, rafbók eða hljóðbók - allar tegundir bóka eru gjaldgengar í keppninni. Hér er átt við bækur sem innihalda til dæmis skáldskap, fræði, skýrslur eða eitthvað allt annað.

Aðstandendur Allir lesa eru: Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg Unesco. Samstarfsaðilar eru Félag íslenskra bókaútgefenda, ÍSÍ, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Mjólkursamsalan, RÚV, Síminn, SA og Rannís.