Laus pláss í jólasölutjaldi í Fógetagarði

Skipulagsmál Mannlíf

""
Þar sem færri komust að en vildu á jólamarkaðinn hjá Nova á Ingólfstorgi hefur Borgin ákveðið að bjóða upp á pláss í stóru tjaldi í Fógetagarðinum

Sölupláss er í boði þann 21., 22. og 23. desember. Tjaldið verður skreytt með stórum ljósaseríum og jólatónlist verður spiluð í tjaldinu.
Opnunartími: 21. og 22. desember 14:00-22:00, 23. des 14:00-23:00.
 
Hvert söluborð (220 cm langt) kostar 30.000,- fyrir þessa 3 daga en söluaðilar þurfa að skuldbinda sig til þess að vera allan tímann, alla dagana, og mæta amk klukkustund fyrir opnun á hverjum degi til þess að stilla upp og vera fram að lokun. Allir söluaðilar þurfa að koma með síða dúka sem hylja bæði borðin og ná niður á gólf. Stilla þarf vörum smekklega upp og skreyta þannig að það myndist skemmtileg jólastemmning í tjaldinu.
 
Aðilar sem eru með sölu þar sem allur ágóði rennur til góðgerðasamtaka eða félagssamtaka greiða aðeins 10.000,- krónur eða þriðjung af verðinu.
 
Sendir verða út reikningar og greiða þarf þá fyrir 21. desember til þess að vera með.
 
Til þess að sækja um þarf að fylla eftirfarandi út og senda póst með heitinu „jólamarkaður“ á netfangið jolamarkadur@reykjavik.is. Ekki er tekið við fyrirspurnum í síma en reynt verður að svara tölvupóstum eins fljótt og auðið er. Í umsókn þarf að koma fram nafn söluaðila, kennitala, stutt lýsing á vörum og farsímanúmer.
 
Vonast er til þess að skemmtileg jólastemmning myndist og að fjölbreyttur hópur söluaðila komi þarna saman.