Íslensk menning í Barcelona

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ávarpar gesti menningarhátíðarinnar La Mercé við setningarathöfn hennar í Barcelona í kvöld, í boði Ödu Colau Ballano borgarstjóra.  Íslenskir listamenn munu setja svip sinn á hátíðina því Reykjavík er gestaborg La Mercé í ár.

Fyrir hönd Íslands koma fram Samaris, Kiasmos, Glowie, Emmsjé Gauti, Ólöf Arnalds, Grísalappalísa, Reykjavíkurdætur, JFDR, Guðrún Ólafsdóttir, Milkywhale, Halldór Mar, Ingvar Björn, Sigríður Soffía Níelsdóttir og sýningin Full Dome Show. 

Á hátíðinni verða fjórar íslenskar myndir, heimildarmynd Péturs Einarssonar um hrunið, Hross í oss, mynd Benedikts Erlingssonar, tónlistarmyndin Bakgarðurinn eftir Árna Sveinsson og að lokum myndin Bokeh eftir Geoffrey Orthwein og Andrew Sullivan sem er vísindaskáldskapur um amerískt par sem ferðast til Íslands.

Hátíðin er einn stærsti menningarviðburður Barcelóna og stendur yfir dagana 22. – 25. september. Þúsundir gesta sækja borgina heim til að taka þátt í hátíðahöldunum þar sem menning og listir eru í fyrirrúmi. Umgjörðin eru sögufrægir staðir í miðborg Barcelona auk þess sem hátíðin teygir anga sína í úthverfin með þátttöku borgarbúa.

Frá árinu 2007 hefur einni gestaborg verið boðið að taka þátt í hátíðinni með það í huga að kynna menningu og listir frá öðrum löndum og um leið að efla samstarf og vináttubönd milli borganna. Gestaborgir á La Mercé hafa verið m.a. París (2016), Buenos Aires (2015) og Stokkhólmur (2014). Allar þessar borgir hafa vakið athygli meðal gesta og sett mark sitt á hátíðahöldin ár hvert.