Hverfissjóður hlúir að félagsauði og mannlífi

Umhverfi Mannlíf

""

Verkefni sem efla félagsauð, fegra mannlífið, styrkja samstarf íbúa og stuðla að fegurri ásýnd borgarhverfa eru meðal verkefna sem Hverfissjóður Reykjavíkur hefur ákveðið að styrkja á þessu ári. Alls bárust 28 umsóknir fyrir tilskilinn tíma og var rúmum fjórum milljónum króna var úthlutað til þrettán verkefna.

Borgarbýli og Blómin á þakinu

Af þeim verkefnum sem hlutu stuðning má nefna  „Borgarbýli í Reykjavík“ en það er uppbygging sjálfbærs og samvinnurekins borgarbýlis með innihúsræktun og námskeið í heilnæmum lífsstíl. Þar er um að ræða langtímaverkefni sem á að byggja upp samfélagslega ábyrgð, samhug og félagsanda.

Annað verkefni sem einnig tengist aukinni umhverfisvitund er „Blómin á þakinu“ en það felst í að setja upp aðstöðu, gróðurhús og blómakassa fyrir börn í Austurbæjarskóla og fjölskyldur þeirra til garðræktar. Hugmyndin er að börn læri að umgangast blóm og plöntur sem áhugamál og nytjavöru.

Lappað upp á hólinn (og fleira í þeim dúr)

„Lappað upp á hólinn (og fleira í þeim dúr)“ er bæði umhverfis- og endurnýtingarverkefni í Norðurhlíðunum. Umsækjendur vilja lappa upp á Vatnshólinn, en þar á bak við er skjólsæll og notalegur lundur með marga vannýtta kosti. Þar á að fegra og koma fyrir bekk og leggja stíg.  Einnig á að koma upp endurvinnslukössum hér og þar um hverfið, þannig að „…ef þú ert á leið i afmæli til Úlfars frænda og gleymdir að kaupa gjöf þá kemurðu einfaldlega bara við í einum af endurvinnslukössunum og kippir einhverju djásni með þér,“ eins og segir í umsókninni. Með verkefninu á að fegra umhverfið, gleðja náungann og efla samkennt íbúa hverfisins.

Leggðu rækt við garðinn

Hverfissjóður lagði einnig lið verkefni sem lítur að foreldratengslum um Læsisgarðinn á Leikskólanum Ösp í Breiðholti.  Annað verkefni sem einnig lítur að ræktun tengsla og garðs er samstarf Listasafns Einars Jónssonar og leikskólans Laufásborgar. Leikskólabörn koma reglulega í Höggmyndagarð safnsins við Freyjugötu og hafa tengst honum. Með því að gefa þeim kost á að taka þátt í gróðursetningu, hlúa að plöntunum, vökva þær og næra má búast við sterkari böndum við garðinn. Einnig verða börnin fengin til að endurskipuleggja „hólinn“ sem er þeirra uppáhaldsleiksvæði.

Viðburðir og samstarfs um kynningu á tómstundastarfi

Viðburðir sem fengu brautargengi eru vorhátíð Austurbæjarskóla, hverfahátíð og hreinsunardagur í Úlfarsárdal, sumarhátíð Árbæjar, útimarkaður í Laugardal og tónleikar á Klambratúni.

Samstarf og sameiginleg kynning á framboði tómstundastarfs í Grafarholti og Árbæ var einnig styrkt, sem og kynningarátak Leiknis í Breiðholti.

Hverfissjóður Reykjavíkur byggir á samfélagssjóði SPRON sem var færður borginni til varðveislu og úthlutunar.  Nánari upplýsingar hér um Hverfissjóð Reykjavíkur.  Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári.