Hverfisráð Hlíða úthlutar fjármagni til eflingar félagsauðs og heilsu

""
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í styrktarsjóð hverfisráðs Hlíða. Hverfasjóðir eru starfræktir í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um úthlutun styrkja á vegum hverfisráða. Sjóðurinn er starfræktur í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um úthlutun styrkja á vegum hverfisráða
 
 

Einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir geta sótt um styrki vegna sérstakra viðburða eða verkefna í Hlíðunum, m.a. vegna hverfishátíða, eflingar félagsauðs- og heilsu,  Ekki er gert ráð fyrir styrkjum til að standa undir rekstrarkostnaði og leitast skal við að veita styrki til verkefna sem falla að hlutverki sveitarfélagsins. Úthltuað verður allt að 400.000 kr. 

Umsóknir skulu berast til Harðar Heiðars sem er verkefnastjóri í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar- Miðborgar og Hlíða á netfangið  hordur.heidar.gudbjornsson@reykjavik.is 
Mikilvægt er að símanúmer og netfang umsækjenda fylgi með umsókn.

Umsækjendur skulu hafa eftirfarandi í huga við gerð umsókna:

  1. Í umsókn skal koma fram nafn, kennitala og heimilisfang ábyrgðaraðila. Einnig komi fram hvort umsækjandi hafi hlotið styrk frá öðrum nefndum eða stofnunum á vegum Reykjavíkurborgar eða hafi sótt um slíka styrki.
  2. Ef fleiri en einn aðili sækja sameiginlega um styrk til ákveðins verkefnis skulu allir staðfesta umsókn með undirritun
  3. Með umsókn skal fylgja greinargerð um verkefnið, markmið þess og framgang. Að auki skal fylgja nákvæm kostnaðaráætlun.
  4. Eftir umsaminn tíma (sem fer eftir eðli verkefna) skulu styrkþegar skila inn skýrslu þar sem greint verður frá því hvernig styrknum hafi verið varið. Með skýrslunni skulu fylgja frumgögn, s.s. greiðslukvittanir.
  5. Styrkþegar skulu láta þess getið í kynningarefni að þeir hafi hlotið styrk frá viðkomandi hverfisráði.

Umsóknarfrestur er til og með 26. júní n.k.

Hverfisráðið tekur afstöðu til styrkumsókna á fundum sínum. Öllum umsóknum verður svarað skriflega. Verkefnastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar- Miðborgar og Hlíða annast umsýslu með styrkveitingum hverfisráðanna.

Meðfylgjandi eru reglur um úthlutun styrkja á vegum hverfisráða.

 

Reglur um úthlutun styrkja á vegum hverfisráða

1.gr.

Einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir geta sótt um styrki vegna sérstakra viðburða eða verkefna í hverfum Reykjavíkurborgar, m.a. vegna hverfishátíða, hreinsunarátaka, kynningarfunda um borgarmálefni, íbúaþinga, nágrannavörslu eða hvatningaverðlauna. Ekki er gert ráð fyrir styrkjum til að standa undir rekstrarkostnaði. Leitast skal við að veita styrki til verkefna sem falla að hlutverki sveitarfélagsins eða teljast á annan hátt vera í samræmi við stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda.

2.gr.

Íbúasamtökum er heimilt sækja um styrki til að standa undir kostnaði af fundum eða öðrum viðburðum. Skilyrði styrkveitinga til íbúasamtaka er að þau haldi auglýstan aðalfund, kjósi sér stjórn og skili ársreikningi með umsókn um fjárstuðning.

3.gr.

Hverfisráði er heimilt að semja við útgáfufyrirtæki um kaup á tilteknum fjölda auglýsinga/dálksentimetra í hverfisblöðum. Upphæðin skal vera allt að 450.000 kr. fyrir hvert blað. Gert er að skilyrði fyrir 450.000 kr. greiðslu að blaðið komi út a.m.k. 6 sinnum á ári. Gerður skal skriflegur samningur milli viðkomandi hverfisráðs og útgáfuaðila um kaup á efni.

4.gr.

Hverfisráð skulu vekja athygli á því að hægt er að sækja um styrki til ráðsins, t.d. með auglýsingu í hverfisblöðum, þar sem því verður við komið og/eða á heimasíðu viðkomandi þjónustumiðstöðvar.

5.gr.

Hverfisráð taka afstöðu til styrkumsókna á fundum sínum. Öllum umsóknum verður svarað skriflega. Verrkefnastjóri þjónustumiðstöðva annast umsýslu með styrkveitingum hverfisráða.

Við meðferð og mat á umsóknum skal viðhafa góða stjórnsýsluhætti, gagnsæi og vönduð vinnubrögð. Umsóknir verða að berast innan umsóknarfrests til að teljast gildar.

6.gr.

Í umsókn skal koma fram nafn, kennitala og heimilisfang ábyrgðaraðila. Einnig komi fram hvort umsækjandi hafi hlotið styrk frá öðrum nefndum eða stofnunum á vegum Reykjavíkurborgar eða hafi sótt um slíka styrki. Hafi umsækjendur áður fengið styrki skulu liggja fyrir skilagreinar um nýtingu fyrri styrkja. Viðburðir eða verkefni eru ekki styrkt eftir á.

Styrkveiting felur ekki í sér fyrirheit um frekari skuldbindingar af hálfu Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að rifta samningum, afturkalla styrkloforð og/eða  krefjast endurgreiðslu ef sannanlega er um forsendubrest eða vanefndir að ræða af hálfu styrkþega.

Með umsókn skal fylgja greinargerð um verkefnið, markmið þess og framgang. Í árslok skal leggja fram greinargerð um nýtingu fjárins.

7.gr.

Styrkþegar skulu láta þess getið í kynningarefni að þeir hafi hlotið styrk frá viðkomandi hverfisráði.

8.gr.

Hverfisráðum ber að skila yfirliti yfir styrkveitingar til velferðarráðs og borgarráðs í lok árs.