Hvatningarverðlaun velferðarráðs veitt á þekkingardegi sviðsins

Velferð

""

Hvatningarverðlaun velferðarsviðs fyrir árið 2016 voru afhent í dag, á þekkingardegi velverðarsviðs, en markmið þeirra er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu velferðarstarfi í borginni. 

32 einstaklingar, hópar eða verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna, þar af voru 14 tilnefndir í flokki einstaklinga, átta í flokki hópa eða starfsstaða og tíu í flokki verkefna. Starfsmenn í þjónustu við fatlað fólk voru áberandi meðal vinningshafanna í ár.

Faglegur, ljúfur og fyrirmynd annarra

Halldór k. Júlísson, deildarstjóri, hefur verið starfsmaður velferðarsviðs frá því að málaflokkur fatlaðra færðist yfir til borgarinnar árið 2011 en hann vann áður hjá SSR. Halldór er doktor í fötlunarsálfræði. Hann nýtir fagþekkingu og áratuga reynslu til þess að velta upp nýjum hliðum til lausna. Hann er hvetjandi og jákvæður í samstarfi, hlustar á samstarfsfólk sitt og virðir skoðanir þess. Aðkoma hans að málefnum utangarðsfólks styrkir þá vinnu verulega bæði Reykjavíkurborg sem og notendum þjónustunnar til góðs.  Því er Halldór vel kominn að verðlaununum.  Hann er einnig mjög góð fyrirmynd annarra í starfi. Hann hefur sýnt á þeim tíma sem hann hefur unnið hjá velferðarsviði hversu tilbúinn hann er að taka við nýjum verkefnum og setja sig inn í þau af mikilli fagmennsku og metnaði.

Fiskurinn leiðarljós í samruna

Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða varð til á árinu 2016 með samruna Vesturgarðs og Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða. Allir starfsmenn lögðust á eitt til að láta sameininguna ganga sem best. Lögð var áhersla á að notendur þjónustunnar upplifðu ekki rof í þjónustu við þær breytingar sem urðu við lokun Vesturgarðs og flutning allar starfseminnar á Laugaveg 77. Starfsfólk einsetti sér að búa til góðan vinnustað, veita framúrskarandi þjónustu og gera góða daga betri. Starfsmannahópurinn hefur tileinkað sér að vinna eftir lífsspeki fisksins sem snýst um fjögur lykilatriði; að velja sér viðhorf, gera daginn eftirminnilegan, vera til staðar og leika sér. Þessi nýja þjónustumiðstöð er fjölmenn og fjölbreytt og hefur sameiningin gengið afar vel fyrir sig og á allt starfsfólk sameinaðar þjónustumiðstöðvar hrós skilið.

Bætt hegðun og betri líðan

Verkefnið K3 hlýtur viðurkenningu en markmið þess hefur verið að ná utanum erfiða hegðun sem einstaklingar, búsettir á þremur búsetukjörnum, hafa sýnt í gegnum tíðina. Forstöðumenn kjarnanna þriggja, þær Hanna Kristín, Ragna og Ingibjörg Elín, hafa sýnt fádæma dugnað við að breyta innviðum heimilanna sem þær stýra þannig að betur fari um íbúa og starfsmenn. Þær hafa fengið starfsmenn heimilanna í lið með sér við uppbyggingu á skipulögðum og samræmdum vinnubrögðum sem hafa leitt til bættrar líðan bæði íbúa og starfsmanna. Verulega hefur dregið úr alvarlegum uppákomum, veikindafjarvistir hafa dregist saman og bæði íbúar og starfsmenn upplifa sig öruggari á heimili/vinnustað en áður.

Guðný Jónasdóttir fékk viðurkenningu fyrir farsælt starf

Guðný er forstöðukona á sambýlinu í Grundarlandi 17 og hefur verið frá stofnun þess fyrir tæplega 30 árum. Guðný er einstakur leiðtogi og hefur búið íbúum að Grundarlandi yndislegt heimili árum saman. Guðný sinnir starfi sínu af alúð og metnaði og er afar umhugað um velferð þeirra sem njóta þjónustunnar

 

Þetta er í sjötta sinn sem hvatningarverðlaun velferðarráðs eru veitt. Í valnefnd voru: Ilmur Kristjánsdóttir, Gréta Björg Egilsdóttir, Garðar Hilmarsson, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Lóa Birna Birgisdóttir.