Hvarr‘ í gangi?

Skóli og frístund

""

Á undanförnum vikum hafa unglingar í Hlíðaskóla sýnt söngleikinn Hvarr í gangi? við mikinn fögnuð en leiklist er í hávegum höfð í skólanum.  

Söngleikur unglingadeildar Hlíðaskóla „Hvarr´í gangi“ var frumsýndur fimmtudaginn 12. mars og fóru nemendur á kostum í margvíslegum hlutverkum. Leikhópurinn uppskar standandi lófaklapp áhorfenda og uppskáru þar með ríkulega fyrir allt erfiðið á tíu vikna æfingartímabili. 

Söngleikurinn er spunaleikhús saminn af nemendum sjálfum, ærslafullur gamanleikur um líf unglinga í ótilgreindu hverfi í Reykjavík. Þar gerast óvæntir atburðir sem setja daglegt líf úr skorðum og allt fer á hliðina. 

Um 90 unglingar tóku þátt í uppsetningunni sem handritshöfundar, leikarar, söngvarar, dansarar, tónlistarmenn, ljósa- og hljóðmenn, förðunar- og búningateymi, sviðsmyndasmiðir og ritnefnd leikskrár. Lagt er upp með að allir sem vilji leika fái það og voru leikhlutverkin 65 að þessu sinni. Leikstjóri var Anna Flosadóttir. 

Hlíðaskóli leggur áherslu á skapandi skólastarf þar sem nemendur fá að blómstra þar sem þeir eru sterkastir og er söngleikurinn einn liður í þeirri viðleitni.